Töluverðar tafir á farangri

Tafir urðu á farangursþjónustu á Keflavíkurflugvelli í nótt vegna framkvæmda.
Tafir urðu á farangursþjónustu á Keflavíkurflugvelli í nótt vegna framkvæmda. ljósmynd/Isavia

Fjöldi farþega á Keflavíkurflugvelli varð fyrir „töluverðum töfum“ þegar þeir biðu eftir að farangur þeirra skilaði sér í komusal í nótt. Framkvæmdir sem miða að því að auka afkastagetu salarins ollu töfunum en að sögn markaðsstjóra Isavia er ekki búist við viðlíka töfum í kvöld.

Vandræðin hófust í kringum miðnætti, en fjöldi véla lendir á flugvellinum á skömmum tíma um það leyti. Sextán flugvélar lentu á tímabilinu frá miðnætti til um kl. 03.00, og lenti rúmlega helmingur þeirra á um klukkutíma tímabili.  

Gunnar K. Sigurðsson, markaðsstjóri Isavia, segir að tafirnar hafi orðið vegna innleiðingar á nýju farangurskerfi og stækkunar komusalarins. Farangursflokkunarkerfið sé komið í fulla notkun fyrir brottfararfarangur en verið sé að tengja nýju kerfin inn á farangursböndin í komusal. Af þeim sökum séu tvö af þremur farangursböndum í notkun þessa dagana.

Hann segist ekki vita nákvæmlega hversu lengi farþegar hafi þurft að bíða eftir farangri sínum. Í frétt Ríkisútvarpsins er því haldið fram að dæmi hafi verið um að fólk hafi beðið í allt að tvo tíma en Gunnar segist ekki geta staðfest það. „Töluverðar tafir“ hafi orðið á þjónustunni.

Nauðsynlegt hafi verið að innleiða nýtt kerfi eftir að Icelandair og Wow air tilkynntu um kaup á stærri flugvélum sem notuðu svokallaða farangursgáma, en reisa hefur þurft nýtt húsnæði utan um kerfin bæði komu- og brottfararmegin og setja ný kerfi upp.

Má búast við töfum áfram

Kvöldin eru orðin einn erilsamasti komutími á flugvellinum vegna aukins miðnæturflugs, að sögn Gunnars. Flest þeirra eru á sunnudagskvöldum. Af þessum sökum gerir hann ekki ráð fyrir því að eins miklar tafir verði á farangrinum í kvöld.

Öll farangursböndin í komusalnum eiga að vera komin í gagnið aftur 7. júlí og segir Gunnar að Isavia vinni með rekstraraðilum á flugvellinum til þess að reyna að lágmarka tafir vegna þeirra. Hins vegar megi búast við einhverjum töfum fram að því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert