Týndi ökuskírteininu á Ítalíu

Orri á betri stundu en í morgun.
Orri á betri stundu en í morgun. Ljósmynd/Úr einkasafni

Nú þegar Íslendingar flykkjast til Nice fyrir leikinn í kvöld ganga ferðalög þeirra eflaust misvel fyrir sig. Ungur Íslendingur, Orri Gunnlaugsson, lenti í nokkrum ógöngum í morgun og um tíma var útlit fyrir að hann kæmist ekki til Frakklands í tæka tíð fyrir leikinn, þegar hann gat ekki nálgast fararskjóta sinn.

„Ég er í fríi á Ítalíu og var búinn að panta mér bílaleigubíl til að keyra á leikinn,“ segir Orri, sem hafði náð að kaupa einn miða á leikinn í kvöld. Þegar hann var á leið á bílaleiguna í morgun uppgötvaði hann, sér til mikillar skelfingar, að ökuskírteini hans var horfið.

„Ég er búinn að nota það margoft hérna úti til að sýna að ég sé undir 25 þegar ég er að fara inn á söfn og slíkt, þannig að ég vissi alveg að ég væri með ökuskírteini, en allt í einu fæ ég hugdettu og ákveð að kíkja í veskið og ég tæmi veskið og það er bara ekki í helvítis veskinu.

Þarna er korter í að lestin eigi að fara en ég verð að snúa við – ég get ekki leigt bílinn án þess að hafa ökuskírteini. Þannig að ég sný við og fer í íbúðina sem ég er að leigja og sný öllu á hvolf bókstaflega, en ökuskírteinið fannst hvergi.“

Þegar þarna var komið sögu var Orri orðinn of seinn að sækja bílinn, sem hann telur sig þurfa að greiða fyrir, þar sem hann afpantaði hann með einungis 10 mínútna fyrirvara. Orri dó þó ekki ráðalaus, heldur kannaði hvort einhverjar samgöngur lægju til Nice sem kæmu honum þangað í tæka tíð. Ein leið var fær; lest með viðkomu í Genúa.

Þegar blaðamaður náði tali af Orra var hann staddur í lestinni og átti að lenda á áfangastað um klukkan fjögur að staðartíma. „Þetta var rosalegt stress og bara algjör heppni að það skyldi vera lest til Nice. Það er bara tvisvar á dag sem þessi leið er farin, svo það var að taka þessa eða bíða til kvölds og koma þá um níu eða tíu í kvöld.“

Upphaflega ætlaði Orri sér að vera kominn á leiðarenda um klukkan eitt í dag á frönskum tíma, svo komutímanum seinkaði aðeins um þrjár klukkustundir, þótt hann hafi lagt seinna af stað. „Þetta fór vel að lokum, það má segja það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert