Býður Íslendingum upp á bjór

Það verður Íslendingahátíð í Kaupmannahöfn í kvöld.
Það verður Íslendingahátíð í Kaupmannahöfn í kvöld. mbl.is/Skapti

Friðrik Weisshappel efnir til sannkallaðrar Íslendingahátíðar í Kaupmannahöfn í kvöld en hann hyggst bjóða öllum Íslendingum í borginni upp á bjór á Laundromat Café við Elmegade í Nørrebro.

Tilefnið er að sjálfsögðu sögulegur sigur íslenska landsliðsins á því enska í sextán liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu í gærkvöldi.

Í samtali við DR í dag sagðist Friðrik hafa veðjað á íslenskan 2–1 sigur og unnið bunka af tuttugu króna dönskum seðlum. Vinningsféð hyggst hann nota til þess að bjóða í gott sigurpartí á stað sínum í kvöld.

Hátíðin hefst klukkan 19 að staðartíma en sýnt verður frá henni í beinni útsendingu á DR.

„Sál okkar er svolítið viðkvæm eftir erfiða tíma vegna Panamaskjalanna, hrunsins og lélegra stjórnmálamanna. Við höfum skammast okkar fyrir þetta allt. Það var því frábært að fá eitthvað sem er hreint út í gegn, eitthvað sem við höfum unnið fyrir og eigum skilið,“ segir Friðrik.

„Ég varð glaður og ótrúlega stoltur. Ég fæ tár í augun bara núna, vegna þess að þetta þýðir svo mikið fyrir okkur,“ bætir hann við.

Frétt DR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert