Helmingi færri deyja fyrir fimm ára aldur

Árleg skýrsla UNICEF kemur út í dag.
Árleg skýrsla UNICEF kemur út í dag. mbl.is/Dar Al Mussawir

Meira en helmingi færri börn láta lífið fyrir fimm ára aldur en árið 1990, aðgangur barna að menntun hefur stórbatnað og nær helmingi færri börn búa við sára fátækt en árið 1990. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu UNICEF sem kemur út í dag.

Í skýrslunni er vísað til árangursins sem náðst hefur frá því að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989 en UNICEF á Íslandi greina frá í fréttatilkynningu.

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir það ánægjulegt að sjá að skipulögð barátta fyrir bættri stöðu barna skilar árangri. „En það er líka skýrt hvað þarf enn að gera,“ segir Bergsteinn. „Skýrslan ætti að vera hvatning til stjórnvalda og annarra sem koma að þróunarmálum að leggjast á árar með okkur til að tryggja öllum börnum jafna möguleika á að lifa góðu lífi.“ 

Í skýrslunni kemur fram að aukið aðgengi barna að menntun skipti miklu máli fyrir samfélög og einstaklingana sjálfa. Sem dæmi hækka tekjur þeirra á fullorðinsaldri um 10 prósent fyrir hvert ár í skóla.

Árangrinum oftar en ekki misskipt

Í skýrslu UNICEF kemur fram að árangrinum sem náðst hefur sé oftar en ekki misskipt. Þótt barnadauði sé í dag meira en helmingi minni á heimsvísu en hann var árið 1990 eru fátækustu börnin tvöfalt líklegri til að deyja fyrir 5 ára afmæli sitt en þau sem standa best efnahagslega. Víða í Suður-Asíu og Afríku sunnan Sahara eru börn mæðra sem enga menntun hafa hlotið nærri þrisvar sinnum líklegri til að deyja fyrir 5 ára aldur.

Miðað við þróun mála eins og hún er í dag reiknast höfundum skýrslunnar til að fram til ársins 2030 munu:

  • 69 milljónir barna undir 5 ára aldri deyja vegna sjúkdóma sem að mestu er auðvelt að lækna.
  • 167 milljónir barna enn búa við sára fátækt, 90% þeirra í Afríku sunnan Sahara.
  • Meira en 60 milljónir barna á grunnskólaaldri enn þá vera utan skóla og meira en helmingur þeirra í Afríku sunnan Sahara.
  • Nærri 120 milljónir barna þjást af vanþroska vegna vannæringar.
  • 750 milljónir kvenna verða í hjónaböndum sem þær voru þvingaðar í sem stúlkur.

„Tölurnar sýna að það er ekki hægt að búa við óbreytt ástand. Þegar misskipting hefur svona alvarleg áhrif á líf milljóna barna verðum við að bregðast við. Skýrslan sýnir okkur að það hvílir ekki bara siðferðisleg skylda á okkur að grípa til aðgerða, heldur geti þær aðgerðir haft töluverðan efnahagslegan ávinning sem bæti velferð barna og samfélagsins í heild,“ er haft eftir Bergsteini í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert