„Kraftaverk gerast og þau gerast enn“

Þórður Óskarsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, var í viðtali á …
Þórður Óskarsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, var í viðtali á Sky News í kvöld. Skjáskot/Sky News

„Við höfðum alltaf væntingar þar sem liðið hefur staðið sig vel í undankeppninni. En fæstir bjuggust við að þeir kæmust í útsláttarkeppnina. En kraftaverk gerast og þau gerast enn,“ sagði Þórður Óskarsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, í viðtali við Sky News í dag.

Englendingar eru margir furðu slegnir eftir að Ísland bar sigur úr býtum gegn enska liðinu á EM í gær og var Þórður fenginn til þess að útskýra hvernig sigurinn liti út frá bæjardyrum Íslands séð.

Spyrillinn benti Þórði á að þetta hefði verið ansi harkalegur sigur Íslands á Bretum, svo skömmu eftir að Bretar ákváðu að gera eins og Íslendingar og standa utan Evrópusambandsins.

„Ég held að það eina sem þetta tvennt eigi sameiginlegt er orðið exit,“ svaraði Þórður um hæl.

Hann segist hafa horft á leikinn á stað þar sem um 100 Íslendingar voru saman komnir og svipaður fjöldi Englendinga. „Þetta var mjög skemmtilegt kvöld. Þegar leikurinn hófst voru Englendingarnir ánægðir en síðan tókum við yfir, alveg eins og í leiknum. Fólk var svo í sigurvímu að leik loknum,“ sagði Þórður.

Spurður hvernig stemmningin sé á Íslandi þessa stundina sagði Þórður: „Stemmningin er góð. Fólk fagnar ákaflega og ég held að fólk hafi ekki áorkað miklu í vinnunni í dag. Nú eru allir með hugann við sunnudag og reynir fólk allt til að komast til Frakklands á leikinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert