Danni rauði heldur með Íslandi

Daniel Cohn-Bendit, stúdentaleiðtoginn fyrrverandi sem gekk undir viðurnefninu Danni rauði, …
Daniel Cohn-Bendit, stúdentaleiðtoginn fyrrverandi sem gekk undir viðurnefninu Danni rauði, heldur með Íslandi á sunnudag.

Leiðtogi stúdentauppreisnarinnar í París vorið 1968 segir íþróttahjarta sitt slá með íslenska landsliðinu á EM í fótbolta þótt nýlega hafi hann fengið franskan ríkisborgararétt. Kom þetta fram í samtali við Daniel Cohn-Bendit, Danna rauða, á frönsku sjónvarpsstöðinni Europe 1 í dag.

„Fólk verður að átta sig á hvað hefur gerst. Þessir víkingar frá Íslandi slógu Hollendinga út í undankeppni mótsins og Englendinga núna. Þetta er stórkostlegt,  undur íþróttanna. Þeir hafa verið frábærir. Munið prakkaralega bros víkingsins skeggjótta sem missti af því að skora í dauðfæri. Slík augnablik eru yndisleg, hugsaðu þér. Þetta hefur verið ævintýri,“ sagði Cohn-Bendit.

En Dany við verðum með Frakka og Þýskaland í undanúrslitum, ekki satt?

- Nei, það verður Ísland. Leikurinn er óspilaður en þeir vinna sem eru óútreiknanlegastir. Vissulega ber ég vonir Frakka í brjósti, en íþróttahjarta mitt slær þó með því óvænta; hjartað sem er fyrir hið ófyrirséða, fyrir undrið. Þess vegna er hjartað mitt að sjálfsögðu byrjað að slá með víkingunum áhugasömu sem eru færir um að hrífa heila þjóð með sér. Hugsaðu þér, áhorfið var 99,6% sem þýðir að það voru bara 647 manns á Íslandi sem sáu ekki útsendinguna [frá viðureigninni við Englendinga].

En Dany, þú ert nýorðinn franskur eftir að hafa beðið lengi og hollustuskyldur þínar liggja hjá franska liðinu?

- Nei, í lífinu má maður aldrei hætta að spyrja sig spurninga. Auðvitað og vitaskuld verð ég sæll komist franska liðið í undanúrslitin. En í fyrsta sinn á ævinni í knattspyrnuleik mun ég gleðjast hvernig sem fer. Verð afar sæll með úrslitin, hvort liðið sem vinnur. Ég verð ekki sorgmæddur, hvers vegna? Jú, því þeir bláu eiga þess kost að skemmta mér með óvenjulegum hætti. Ég hef kosið að taka hrífandi töfrana umfram allt annað og mun hampa töfrum beggja.  agas@mbl.is

Danni rauði, Daniel Cohn-Bendit, í stúdentauppreisninni í París vorið 1968.
Danni rauði, Daniel Cohn-Bendit, í stúdentauppreisninni í París vorið 1968.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert