Flugumferðarstjórar misjafnlega sáttir

Flugumferðarstjórar að störfum.
Flugumferðarstjórar að störfum. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Hljóðið í mönnum er misjafnt. Menn eru, eins og gengur og gerist, misjafnlega sáttir með samninginn,“ segir Sigurjón Jónasson, formaður Félags flugumferðarstjóra, í samtali við mbl.is, en kjarasamningur félagsins við Isavia var kynntur félagsmönnum í gærkvöldi.

Atkvæðagreiðsla um samninginn hefst á morgun og munu niðurstöðurnar liggja fyrir snemma í næstu viku, að sögn Sigurjóns.

Samninganefndir deiluaðila skrifuðu undir kjarasamninginn í húsakynnum ríkissáttasemjara aðfaranótt laugardags, eftir löng og ströng fundahöld. Gildir samningurinn til ársloka 2018.

Spurður hvort hann eigi von á að flugumferðarstjórar samþykki samninginn segist Sigurjón ekki þora að geta sér til um það. „Ég veit það ekki. Það gæti orðið tvísýnt.“

Lög voru sett á kjara­deilu flug­um­ferðar­stjóra fyrr í sum­ar, eins og kunnugt er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert