Skánar þegar líður á helgina

Komandi helgi er jafnan mikil ferðahelgi.
Komandi helgi er jafnan mikil ferðahelgi. mbl.is/Styrmir Kári

Föstudagurinn lítur ekkert sérstaklega vel út. Það verður stíf norðanátt á vestanverðu landinu og norðanverðu. Það gæti farið upp í 15 metra á sekúndu á þeim stöðum þar sem oftast er hvasst, “ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni um helgarveðrið.

Helgin sem nú gengur í garð er fyrsta helgin í júlí. Helgi sem oft er ein mesta ferðahelgi sumarsins. Mbl.is ræddi við Helgu um helgarveðrið, ekki bara vegna ferðalaga heldur einnig vegna leiks Íslands og Frakklands á sunnudagskvöldið klukkan 19 en margir hugsa sér eflaust gott til glóðarinnar og vilja jafnvel grilla yfir leiknum, sé veður til.

Sjá veðurvef mbl.is

„Þeir sem ætla að ferðast með tjaldvagna og húsbíla ættu kannski að fylgjast vel með því á föstudaginn hvort það verði nokkuð of hvasst að aka, sérstaklega á Vesturlandi,“ segir Helga. 

Besta veðrið um helgina verður líklegast á Suðurlandi. 

„Það verður ansi góð rigning um landið norðaustanvert. Það gæti jafnvel orðið talsverð rigning um tíma á föstudaginn. Besta veðrið á föstudaginn verður á Suðurlandi þar sem er skjól. Þar ætti að vera þurrt og hitinn allt að 15 stig.“

„Á laugardaginn fer veðrið svo skánandi. Þá verður búið að draga úr vindi og úrkomu. Það verður ennþá einhver væta norðan- og austanlands en minni en á föstudaginn. Einhverjir skúrir verða svo kannski síðdegis en samt ágætt veður,“ segir Helga.

„Á sunnudaginn verður enn hægari norðanátt og víða að mestu þurrt en gætu orðið einhverjir síðdegisskúrir.“

Gæti orðið erfitt að horfa á skjáinn

Útlit er fyrir fínt veður á sunnudagskvöldið í Reykjavík og lofar það góðu fyrir þá sem ætla að skella sér á Arnarhól til að sjá Ísland etja af kappi við Frakkland á EM.

„Á sunnudagskvöld verður grillveður í Reykjavík. Hægur vindur og þurrt. Veðrið lítur mjög vel út, hitinn um 10-11 stig og fínasta veður. Helsta áhyggjuefnið er að það gæti orðið bjart og erfitt að horfa á skjáinn á Arnarhóli. Það mun létta til þarna, og það gæti því orðið helsta vandamálið. En annars bara fínasta veður og hægur vindur um allt land,“ segir Helga.

Veðrið í vikunni hefur ekkert verið sérstakt á suðvesturhorninu. Aðspurð hvort von sé á blíðviðri á næstunni segir Helga:

„Á mánudaginn er spáð ágætu veðri. Það gæti orðið fínt víða, smá sól og hægur vindur. Mánudagur og þriðjudagur er svipaður með hægum vindi. Svo þegar líður á vikuna þá er útlit fyrir einhverja skúri. Það verður hæglætisveður í næstu viku með hægum vindi. Við munum samt ekkert sprengja hitakvarðann heldur verður allt að 16 stig yfir daginn þar sem mest er,“ segir Helga að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert