Sprenging í hraðafgreiðslu vegabréfa

Ísland hefur fengið frábæran stuðning á EM til þessa.
Ísland hefur fengið frábæran stuðning á EM til þessa. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þriðjudaginn 28. júní 2016, daginn eftir að Ísland sigraði England og komst áfram í átta liða úrslit á EM, bárust Þjóðskrá Íslands 197 beiðnir um hraðafgreiðslu á vegabréfum. Á sama tíma í fyrra voru beiðnirnar 69. Þessa miklu fjölgun má rekja til velgengni íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á EM.

Elín Inga Arnþórsdóttir, deildarstjóri vegabréfa hjá Þjóðskrá Íslands, segir þessar tölur hlægilegar og algjöra sprengingu í hraðafgreiðslum vegabréfa. Þá segir hún deginum ljósara að tengsl séu á milli hraðafgreiðslnanna og ferða Íslendinga til Frakklands á EM.

„Þetta eru Íslendingar á leið til Frakklands, sérstaklega í gær. Við erum í miklu símasambandi við umsóknarstaðina og þegar ég tók stöðuna hjá sýslumanninum í Kópavogi í morgun sagði einn starfsmaður að hennar tilfinning væri sú að um það bil helmingur af öllum hraðafgreiðslum væri vegna Frakklandsferða,“ segir Elín Inga.

Þjóðskrá Íslands.
Þjóðskrá Íslands. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Hún bendir þó á að margt annað geti einnig spilað inn í eins og til dæmis gott tilboð á sólarlandaferðum. Það er þó ljóst að eftir því sem Ísland kemst lengra á EM því meira er að gera í vegabréfunum. Ef bornar eru saman tölur frá fimmtudeginum 23. júní í ár og í fyrra, sem er dagurinn eftir að Ísland sigraði Austurríki og tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum á EM, má sjá talsverða aukningu á hraðafgreiðslu, 52 umsóknir í fyrra miðað við 132 í ár.

Hraðafgreiðsla vegabréfa fyrir fullorðna á aldrinum 18–67 ára kostar 20.250 kr. en almenna afgreiðslan 10.250 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert