WOW býður Tólfunni til Frakklands

Tólfan á Laugardalsvelli.
Tólfan á Laugardalsvelli. mbl.is/Golli

WOW air hefur ákveðið að bjóða 12 félögum stuðningsmannasveitarinnar Tólfunnar til Frakklands, fyrir leik Íslendinga gegn heimamönnum á Evrópumótinu á sunnudag.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir að félagið hafi bætt við flugi til Parísar í gærkvöldi og ákveðið hafi verið að taka frá sæti fyrir Tólfuliðsmenn. „Við ákváðum að við vildum styðja þá, því ég held að það sé í rauninni ekki hægt að hafa leik án þess að þeir séu að styðja með trommurnar og allt dæmið.“

Styrmir Gíslason, stofnandi Tólfunnar, var að vonum ánægður með stuðninginn og segir að Tólfan ætti að verða ansi öflug og sýnileg í Frakklandi núna. „Við erum algjörlega í skýjunum og eiginlega orðlausir yfir velviljanum. Þetta er meiri háttar.“ 

Greint var frá því fyrr í dag að Tólfan fengi 10 miða í vél sem leigð hefur verið í beint flug til Parísar á föstudag. Tólfumenn hafa því fengið flugmiða fyrir 22 félaga að gjöf.

Frétt mbl.is: Bjóða Tólfunni til Frakklands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert