Eplamaukið gerir kraftaverk

Íslenska landsliðið á æfingu við bækistöðvar sínar í Annecy í …
Íslenska landsliðið á æfingu við bækistöðvar sínar í Annecy í Frakklandi í dag. AFP

Í leikhléi á leikjum sínum á EM í knattspyrnu hlaða Íslendingarnir sig orku með því að neyta eplamauks sem framleitt er í grennd við bækistöðvar þeirra í Annecy. Franska útvarpssstöðin Europe-1 segir að þarna sé ef til vill komin uppskrift að góðri frammistöðu Íslendinga á EM.

„Við höfum kannski uppgötvað kraftaverkauppskrift Íslendinganna. Leikmennirnir viðkunnanlegu, sem lögðu Englendinga að velli í fjórðungsúrslitunum, búa yfir töframixtúru þótt ekki þurfi hennar við gegn hósta,“ segir útvarpsstöðin.

„Þeir vinna, þökk sé eplasafanum mínum,“ hefur stöðin eftir þjálfaranum Heimi Hallgrímssyni. Segir hún að frá því íslenska liðið flutti inn í Les Trésoms hótelið við Annecyvatn 7. júní hafi það tekið upp sérstakar venjur sínar. Hafi þeir dekrað við sig af afurðum ávaxtaræktenda  í nágrenninu. Sá heiti Didier Bunaz og kunni hann að eiga sinn mikla þátt í velgengni Íslendinga.

„Frá því mótið hófst hafa liðsfélagar Arons Gunnarssonar neytt tugi lítra af eplasafa og af eplamaukinu,“ segir útvarpsstöðin. Vitnar hún í samtal við Bunaz í íþróttadagblaðinu l'Equipe þar sem hann segir:  „Aldrei hafði ég ímyndað mér að ég ætti eftir að næra heilt fótboltalið,“ segir Bunaz á léttu nótunum.  „Þeir biðja meir að segja um eplamaukið í hálfleik á leikjunum. Ég hef fengið fullt af smáskilaboðum (sms) þar sem þeir segjast hafa unnið, þökk væri eplasafa mínum,“ bætir hann við.

„Það eina sem við þurfum að komast að er hverju þeir blanda út í mixtúruna er gefur Íslendingum hinn mikla leikkraft,“ segir Europe-1 í frétt sinni. agas@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert