Faldi kókaín í golfkylfum

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/ÞÖK

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í gær mexíkóskan ríkisborgara í tíu mánaða fangelsi fyrir að flytja inn 371,4 grömm af kókaíni sem falið var í golfkylfum sem maðurinn flutti til landsins þegar hann kom hingað með flugi frá Mexíkó í apríl á þessu ári.

Maðurinn hafði viðkomu í Brussel og Kaupmannahöfn á leið hingað til lands, en efnin voru ætluð til sölu og dreifingar hér á landi.

Maðurinn játaði brot sitt fyrir dómi en játning hans samrýmist gögnum málsins. Telst brot hans því sannað.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn hafi nú verið sakfelldur fyrir að hafa flutt inn til landsins talsvert magn af kókaíni, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Styrkur þeirra efna sem ákærði flutti inn var að meðaltali um 72-74% sem er umtalsverður og efnin hættuleg hefðu þau komist í umferð. Beindist brot ákærða þannig að mikilsverðum hagsmunum, sem horfir til refsiþyngingar.

Hann hefur ekki áður verið fundinn sekur um refsiverðan verknað svo vitað sé. Honum er einungis gefið að sök brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni en ekki brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hann játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi og á rannsóknarstigi og sýndi ákveðinn samstarfsvilja. Af ákæru og gögnum málsins verður ætlað að maðurinn hafi verið svonefnt burðardýr. Allt framangreint er virt honum til refsimildunar.

Að framangreindu virtu og að gættum styrkleika þeirra efna sem hér um ræðir og með vísan til dómvenju í sambærilegum málum, þykir refsing mannsins hæfilega ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Ekki þykja skilyrði til þess að skilorðsbinda refsinguna. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald sem maðurinn sætti vegna málsins frá 25. apríl 2016, að fullri dagatölu.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert