Lést þegar þakið gaf sig

Karl Friðjón Arnarson.
Karl Friðjón Arnarson.

Maðurinn sem lést í vinnuslysi við Vatnagarða á mánudag hét Karl Friðjón Arnarson, til heimilis að Vesturbergi 41 í Reykjavík. Hann lést við vinnu sína í Reykjavík. Verið var að endurnýja þak á iðnaðarhúsnæði í Vatnagörðum er slysið varð. Maðurinn féll í gegnum þakið og lést af völdum áverka sinna.

Ljóst liggur fyrir í öllum helstu meginatriðum hvernig banaslysið bar að höndum og hverjar voru orsakir þess, að sögn Eyjólfs Sæmundssonar, forstjóra Vinnueftirlitsins. Rannsókn málsins er þó ekki lokið.

Maðurinn var að skipta um þakplötur á húsnæðinu þegar slysið átti sér stað. Skemmdir voru á þakinu en þær voru þess eðlis að þakið gaf sig undan þunga mannsins með þeim afleiðingum að hann féll niður.

Fallið var hátt, yfir tíu metrar, og lést maðurinn samstundis. Nokkur vitni voru að slysinu, samkvæmt upplýsingum mbl.is og Morgunblaðsins.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Vinnueftirlitið hafa málið til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert