Ný lyf breyta ásýnd krabbameina

Gunnar Bjarni Ragnarsson, yfirlæknir lyflækninga krabbameina á Landspítalanum.
Gunnar Bjarni Ragnarsson, yfirlæknir lyflækninga krabbameina á Landspítalanum. mbl.is/Golli

„Þó þetta komi ekki endilega niður á lokaútkomu meðferðar þá er þetta algjörlega óviðunandi því sjúklingar upplifa óöryggi og vanlíðan ef þeir finna ekki fyrir samfellu í meðferð,“ segir Gunnar Bjarni Ragnarsson, yfirlæknir lyflækninga krabbameina á Landspítalanum.

Seinka þurfti krabbameinsmeðferð tólf sjúklinga á Landspítalanum vegna þess að lyfin sem örva ónæmiskerfið til að ráðast gegn krabbameinum bárust ekki á réttum tíma. Þessu greindi fréttastofa RÚV frá í gærkvöldi.

Gunnar Bjarni segir rof á meðferð ávallt alvarlegan hlut sem valdi sjúklingum ekki bara vanlíðan heldur trufli líka starfsemi á krabbameinsdeild. „Þegar það verður einhvers konar rof hjá einum þá kemur það niður á öðrum líka, það þarf að færa aðra til og svo framvegis. Síðan veldur það líka álagi á starfsfólk sem er fyrir undir miklu álagi. Þannig þetta hefur mikla keðjuverkun í för með sér en eins og alltaf látum við sjúklingana ganga fyrir og hlaupum bara hraðar ef með þarf til að tryggja að þeir fái bestu mögulegu þjónustu,“ segir Gunnar Bjarni. 

Seinka þurfti krabbameinsmeðferð um tólf sjúklinga á Landspítalanum vegna þess …
Seinka þurfti krabbameinsmeðferð um tólf sjúklinga á Landspítalanum vegna þess að lyfin sem örva ónæmiskerfið til að ráðast gegn krabbameinum bárust ekki á réttum tíma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný krabbameinslyf  

Hann segir það vera á ábyrgð dreifenda að tryggja það að lyfin komi sér til skila en í sjálfu sér sé það löng keðja að koma lyfinu til neytenda sem ekki megi rofna. „Ef einn hlekkur rofnar þá getur útkoman orðið sú að sjúklingar fái ekki lyfin sín á réttum tíma,“ segir Gunnar Bjarni.

Þau lyf sem ekki komust til skila eru ný tegund af krabbameinslyfjum sem örva ónæmiskerfið til að ráðast gegn krabbameinum. Gunnar Bjarni segir það enn stærri áskorun sem samfélagið verði að taka ákvörðun um hversu langt verði gengið í að borga fyrir ný og dýr krabbameinslyf. „Ég er fullviss um að þessi flokkur af lyfjum muni breyta ásýnd krabbameina,“ segir Gunnar Bjarni. Með þeim er hægt að virkja ónæmiskerfið til að halda krabbameinum niðri, jafnvel til langs tíma. Þá eru aukaverkanir af þessum nýju lyfjum yfirleitt minni en af hefðbundnum krabbameinslyfjum og býr fólk því við betri lífsgæði á lyfjunum.

Landspítali háskólasjúkrahús.
Landspítali háskólasjúkrahús. mbl.is/Ómar Óskarsson

Berjast fyrir kostnaðarþátttöku ríkisins

Sem stendur hefur Landspítalinn fengið mörg þessara lyfja að gjöf frá lyfjafyrirtækjunum án þess að ríkið þurfi að borga fyrir þau. „Okkur hefur tekist að vera á pari við aðra meðal annars með því að að nýta okkur þetta aðgengi að lyfjum frá lyfjaframleiðandanum en nú þurfum við að fara að berjast fyrir að fá kostnaðarþátttöku fyrir þessi lyf,“ segir Gunnar Bjarni. Hann segir það ákvörðun sem samfélagið þurfi að taka hvort ráðast eigi í kaup á lyfjunum. „Við höfum staðið okkur mjög vel á Íslandi í meðhöndlun krabbameina og ætlum okkur að halda því áfram og vera í fremstu röð.“

Gunnar Bjarni segir lokaútkomuna alltaf þá að þeir sem greinist með krabbamein eigi að fá bestu meðferð sem völ er á en það sé samstillt átak margra. Því þurfi að huga betur að mörgu eins og til dæmis áskoruninni sem felst í því að fá lyfin til landsins vegna legu landsins og að hafa viðunandi lagerstöðu þessara dýru lyfja hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert