Reglulega keyrt á sauðfé á Vestfjörðum

Lögreglunni hefur borist tilkynningar um 44 tilvik þar sem keyrt …
Lögreglunni hefur borist tilkynningar um 44 tilvik þar sem keyrt var á sauðfé þannig að það lést og það svo skilið eftir í vegkantinum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Á síðustu tveimur mánuðum hefur lögreglunni á Vestfjörðum borist 44 tilkynningar um að ekið hafi verið á lambfé. Óhöppin hafa orðið víða í umdæminu, t.d. í Reykhólasveit, Dýrafirði, Önundarfirði, Barðastrandavegi, Strandabyggð og Ísafjarðadjúpi. Um talsvert meiri fjölda er að ræða en í fyrra að sögn lögreglumanns.

Frétt mbl.is: Keyrt á 2-3 lömb á dag

Hlyn­ur Haf­berg Snorra­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá embættinu, segir í samtali við mbl.is að í öllum tilfellum sé um að ræða að búfénaðurinn hafi drepist. Segir hann að það komi alls ekki oft fyrir að viðkomandi ökumenn geri viðvart þegar óhapp sem þetta eigi sér stað, hvorki við bónda né lögreglu. Það séu svo ökumenn sem aki fram á hræið sem láti vita.

Í fyrra var samtals tilkynnt um 75 tilfelli þar sem ekið hafði verið á búfénað og miðað við að sauðfé hafi nú gengið úti í allt að einn og hálfan mánuð af um fjórum mánuðum segir Hlynur að þetta sé öllu meira en í fyrra.

Hann vill koma því á framfæri við þá sem eigi búfé að gera allt sem þeir geti til að halda því frá vegunum. Sömuleiðis að ökumenn gæti varúðar og láti vita þegar óhöpp sem þessi komi upp.

Lítið er um girðingar við vegi víða á Vestfjörðum og gengur sauðfé því oft laust við og á vegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert