Risaskjáir víða á sunnudag

Íslenskir stuðningsmenn á Arnarhól, fagna sigri á Englandi.
Íslenskir stuðningsmenn á Arnarhól, fagna sigri á Englandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslendingar geta fylgst með leik Íslands í fjórðungsúrslitum Evrópumótsins á risaskjá víðar en við Arnarhól í Reykjavík, en að minnsta kosti fjórir slíkir skjáir verða settir upp annars staðar á landinu fyrir leikinn á sunnudagskvöld.

Frétt mbl.is: Risaskjár á Akranesi á sunnudag

Frétt mbl.is: Stærri skjár við Arnarhól á sunnudag

Akureyringar geta horft á leikinn á risaskjá á EM torgi norðanmanna á Ráðhústorgi, en þar kom fjöldi saman á mánudaginn til að sjá sigur okkar manna á Englendingum.

Í Vestmannaeyjum ætla heimamenn að slá botninn í Goslokahátíð með sigri á Frökkum, sem hægt verður að sjá á risaskjá á Stakkagerðistúni.

Líkt og greint hefur verið frá munu Skagamenn setja upp risaskjá í skógræktinni, í tilefni bæjarhátíðarinnar Írskra daga, sem haldnir verða á Akranesi um helgina.

Þá mun Hafn­ar­fjarðarbær hafa sinn eig­in risa­skjá á Thorsplani, í sam­starfi við Lands­bank­ann, Trefjar, Fjarðar­kaup, Íslensku kaffi­stof­unn­ar, ISS og Hlaðbæ-Colas. Þar mun Bryndís Ásundsdóttir, söng- og leikkona, stýra hvatningu og söng í hálfleik og á viðeigandi tímum á meðan leik stendur.

Það er því ljóst að risaskjáir munu rísa víða um land á næstu dögum, enda vilja margir skapa stemningu líkt og var á Arnarhól á mánudagskvöld, en lögreglan áætlar að um 15.000 manns hafi þar verið samankomnir. Þær tækjaleigur sem mbl.is setti sig í samband við, segja ljóst að eftirspurn hefur aukist mikið en takmarkað magn risaskjáa sé til á landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert