Vinstri græn telja yfirlýsinguna sem undirrituð var í gær af fulltrúum varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna og utanríkisráðuneytis Íslands skref til forsíðar. Greinilegt sé að henni sé ætlað að skerpa Varnarsamningnum frá árinu 1951 og væri nær að segja honum upp.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og fulltrúi flokksins í utanríkismálanefnd, sendir frá sér fyrir hönd flokksins.
Í yfirlýsingunni segir að á liðnum hafi ítrekað birst í erlendum fjölmiðlum fregnir af áformum um aukin umsvif Bandaríkjahers á Íslandi. Þar sé skemmst að minnast umræðu um breytingar á flugskýlum á Keflavíkurflugvelli.
„Viðbrögð íslenskra ráðamanna hafa frá upphafi verið á þá leið að gera lítið úr málinu með orðhengilshætti um að ekki séu uppi viðræður um „viðvarandi veru“ herliðs á Íslandi,“ segir í yfirlýsingunni.
Vinstri græn segja að í ljósi þessa aðdraganda sé óviðunandi að utanríkisráðherra hafi beðið fram á síðasta starfsdag nefnda fyrir sumarleyfi með að upplýsa utanríkismálanefnd um að til stæði að undirrita þessa yfirlýsingu.
„Það er ótækt að ráðherrar hindri opna og upplýsta umræðu um mikilvæg mál með því að beita slíkum brögðum. Málefni sem þessi má ekki loka inni í utanríkismálanefnd þar sem fulltrúar eru bundnir trúnaði,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá segja Vinstri græn einnig að yfirlýsingin festi enn frekar í sessi herflugæfingar þær sem kallaðar hafi verið „loftrýmisgæsla“ sem og viðveru kafbátarleitarvéla á landinu. Því beri að túlka yfirlýsinguna sem skref íslenskra og bandarískra stjórnvalda í þá átt að starfrækja herstöð á Íslandi líkt og gert var um áratuga skeið.
„Markmið yfirlýsingarinnar er greinilega að skerpa á Varnarsamningnum frá 1951. Það teljum við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði vera skref til fortíðar og nær væri að segja samningnum upp enda var hann gerður við allt aðrar aðstæður en nú ríkja.
Öryggi Íslands á 21. öldinni verður ekki tryggt með hernaðarbandalögum, orrustuflugvélum eða öðrum vígtólum. Það er skýr stefna VG að Ísland eigi að vera herlaust land og standa utan hernaðarbandalaga en efla þátttöku sína í stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar sem öll ríki eiga aðild, svo og í stofnunum eða samtökum eins og Norðurlandaráði, Evrópuráðinu og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu,“ segir í yfirlýsingunni.
Frétt mbl.is: Undirrituðu yfirlýsingu um varnarsamstarf