Drengur Kristjánsson er 7000. íbúinn

Arney Þyrí Guðjónsdóttir og Kristján Valur Sigurgeirsson með son sinn.
Arney Þyrí Guðjónsdóttir og Kristján Valur Sigurgeirsson með son sinn. Ljósmynd/Myndsmiðjan

Sjöþúsundasti íbúinn á Akranesi fæddist á sjúkrahúsinu á Akranesi í gærkvöldi. Það voru þau Arney Þyrí Guðjónsdóttir og Kristján Valur Sigurgeirsson sem eignuðust son sem var fjórtán og hálf mörk að stærð. Þetta er fyrsta barn Arneyjar og Kristjáns sem fluttu á Akranes fyrir ári síðan.

Kristján starfar í Norðuráli og Arney hefur unnið sem stuðningsfulltrúi. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri færði foreldrunum og nýjasta íbúanum hamingjuóskir frá Akraneskaupstað og þar sem drengurinn fæddist sama dag og bæjarhátíðin Írskir dagar voru formlega settir á Akratorgi þá fékk hann græna samfellu með merki írskra daga og foreldrarnir fengu boli merkta írskum dögum. Einnig fengu þau staðfestingarskjal frá Akraneskaupstað um að drengur Kristjánsson fæddur 30. júní 2016 væri íbúi númer sjö þúsund á Akranesi.

Regína segir jafna og stöðuga íbúafjölgun vera í bænum en á síðustu þremur árum hefur íbúum fjölgað um 350 umfram brottflutta. Bæjaryfirvöld eru að skipuleggja nýtt uppbyggingarsvæði á gamla sementsverksmiðjusvæðinu en þar er gert ráð fyrir um 400 íbúðum þegar svæðið verður fullbyggt.

Foreldarnir Arney Þyrí Guðjónsdóttir og Kristján Valur Sigurgeirsson með son …
Foreldarnir Arney Þyrí Guðjónsdóttir og Kristján Valur Sigurgeirsson með son sinn. Á milli þeirra stendur Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Akraness. Ljósmynd/Myndsmiðjan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert