Tildrög banaslyssins liggja ekki fyrir

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ekki er hægt að fullyrða að framúrakstur hafi valdið hörðum þriggja bíla árekstri á Öxnadalsheiðinni fyrir viku. Einn lést í slysinu og annar var fluttur alvarlega slasaður á Landspítalann. Rannsókn málsins stendur yfir og má gera ráð fyrir að hún taki nokkra mánuði.

Í fyrstu fréttum af málinu kom fram að áreksturinn hefði orðið þegar fólksbíll var að taka fram úr öðrum fólksbíl í þann mund er lítil rúta á norðurleið kom á móti bílunum. Annar fólksbíllinn valt en hinn bíllinn og rútan skullu saman.

Maðurinn sem lést var ökumaður annars fólksbílsins og sá sem fluttur var á Landspítalann var ökumaður hins. Nafn hins látna verður ekki gefið upp að ósk aðstandenda. Ekki liggur fyrir hvort hinn ökumaðurinn hafi verið útskrifaður af gjörgæslu. 

Í rútunni voru tólf farþegar auk bílstjóra. Í öðrum fólksbílnum voru ökumaður og farþegi en aðeins ökumaður í hinum.

Frétt mbl.is: Banaslys á Öxnadalsheiði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert