Þurfa að höggva skarð í ísjakann

Mikið mun mæða á fyrirliðum Frakka og Íslendinga á sunnudag, …
Mikið mun mæða á fyrirliðum Frakka og Íslendinga á sunnudag, Hugo Lloris og Aroni Einari Gunnarssyni. AFP

„Portúgalir og Englendingar splundruðust á íslenska ísjakanum. Franska liðið verður að vera þolinmótt, spila tæknilega nákvæmt og nota stærð vallarins og hraða sinn vel.“

Þannig hefst umfjöllun í franska blaðinu La Provence, sem út er gefið í borginni Marseille, um komandi viðureign Íslendinga og Frakka í átta liða úrslitum EM í fótbolta í París á sunnudag.

Höfundur veltir því fyrir sér hvort hægt sé að vinna á ísjakanum íslenska. Hann sá leiki Íslands gegn Ungverjum í Marseille og Englendingum í Nice. „Þeir eru með alls enga tréfætur þegar þeir leika boltanum, ljóshærðu strákarnir stóru. Þó er ljóst, að styrkur þessa liðs liggur í þéttri og samheldinni vörn,“ segir hann.

Höfundurinn veltir fyrir sér hvaða leikmönnum Didier Deschamps muni treysta helst á til að vinna á Íslendingum og hvaða leikkerfi hann velji. Nærtækast telur hann að liðið hefji leik með uppstillingunni 4-3-3 en bregði svo yfir í 4-4-2 í seinni hálfleik með Antoine Griezmann sem örvarodd sóknarinnar er smeygi sér framhjá jökunum bláu og taki við fyrirgjöfum frá hægri og vinstri.

Sökktu Titanic fótboltans

„Það er að segja um jakana sem Englendingar sigldu á og sukku sem væru þeir Titanic fótboltans á 21. öldinni. Og ísjakann sem hvorki Portúgalar né Ungverjar fundu leið framhjá. Það er áskorunin sem franska liðið þarf að horfast í augu við. Vonandi hefur það sýnt meiri einbeitingu á vídeófundunum en Englendingarnir. Það mun sjá að nauðsynlegt verður að koma í veg fyrir að [Kári] Árnason fleyti innköstum [Arons Einars] Gunnarssonar áfram til samherja sinna sem koma hlaupandi fram, alltaf tveir til þrír. En það verður fyrst og fremst sóknarleikurinn sem vekur upp spurningar fyrir franska liðið sem hefur  átt í miklum erfiðleikum með að skora gegn Rúmeníu, Albaníu og Írlandi. Hvaða leið er best til að skora hjá Íslendingum? Svarið við því er einfalt, það verður að dæla fyrirgjöfum fyrir markið,“ segir í La Provence.

Þannig gætu Íslendingar fryst Frakka

Blaðið spyr í fyrirsögn sinni hvernig íslenski borgarísinn verði bræddur en franska íþróttadagblaðið l'Equipe snýr dæminu við í myndbandi á vefsetri sínu. Þar er spurt hvernig Íslendingarnir gætu fryst Frakka og rakin er margs konar tölfræði um skot og mörk þar sem íslenska liðið kom mun betur út en það franska. agas@mbl.is


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert