Vann 54,8 milljónir

Konan ætlar að kaupa sér hús og hund fyrir vinninginn.
Konan ætlar að kaupa sér hús og hund fyrir vinninginn.

Það var heldur betur lukkuleg og ánægð kona sem kom til Íslenskrar getspár í morgun með annan tveggja vinningsmiða frá síðasta laugardegi. Konan fór í Álfinn Kópavogi síðasta föstudag og ætlaði að kaupa sér eina röð í EuroJackpot en henni til happs þá var búið að loka fyrir sölu þar sem klukkan var orðin 17 og þá notaði hún peninginn sem hún var með og keypti sér tvær raðir í Lottó í staðinn. 

Í gær fór hún svo aftur í Álfinn til að versla og rakst þá á Lottómiðann í veskinu og lét renna honum í gegn. Vinningshljóð kom þegar miðanum var rennt í gegnum sölukassann og þá sagði konan: „Vei, ég á þá fyrir öðrum lottómiða“. 

Afgreiðslumaðurinn leit á hana og sagði: „Ég held að þú ættir að setjast niður.“ Því næst rétti hann henni vinningsmiðann og undirstrikaði vinningsupphæðina sem var 54,8 milljónir. Konan var mjög spennt og ánægð en svaf samt vel í nótt og ætlar að nota vinninginn til að kaupa sér hús og hund. Einnig ætlar hún að bjóða allri fjölskyldunni með sér í gott frí til útlanda en konan missti allt sitt í hruninu og er búin að vera á rándýrum leigumarkaði. 

Íslensk getspá biður alla sem keyptu lottómiða í 10-11 við Kleppsveg að athuga með sinn lottómiða því hinn vinningshafinn hefur ekki enn gefið sig fram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert