Hleypa þurfti fólki inn í hollum í versluninni Jóa útherja núna í kvöld þegar sérstaklega var opnað var vegna sölu á landsliðstreyjum. Verslunin fékk á bilinu 4-500 treyjur og segir Valdimar Pétur Magnússon, eigandi verslunarinnar, að líklegast muni þær allar seljast upp á um einni klukkustund. Sett var hámark ein treyja og ein barnatreyja á hvern viðskiptavin sem kom.
Þegar ljósmyndara mbl.is bar að garði náði röðin upp í Síðumúla og mikill fjöldi hafði bæst við síðan klukkustund fyrr þegar um 50 manns biðu.
Valdimar, sem sjálfur er úti á landi og segist hafa fjarstýrt sölunni í gegnum síma í allan dag, segir að þetta sé ástand sem hreinlega þekkist ekki. „Við erum að reyna að gera okkar besta,“ segir hann og bætir við: „Við vildum opna í kvöld og gera okkar besta að koma þessu út.“
Segir hann að ef einhver afgangur verði eða þeir fái fleiri treyjur muni þeir opna á morgun klukkan þrjú. Fleiri búðir fengu einnig sendingu frá umboðinu og verða þær væntanlega opnar á hefðbundnum tíma á morgun.
Hann segir að fjöldi fólks hafi undanfarna daga beðið þá að taka frá treyjur, en það hafi verið ákveðið að segja nei við alla og notast við fyrstur-kemur-fyrstur-fær þegar þeir opnuðu í kvöld.