Fyrst kvenna til að vinna A-flokk gæðinga

Hrannar frá Flugumýri og Eyrún Ýr Pálsdóttir sigruðu A-flokk gæðinga …
Hrannar frá Flugumýri og Eyrún Ýr Pálsdóttir sigruðu A-flokk gæðinga á Landsmóti hestamanna um helgina. mbl.is/ Þórunn

Hin 27 ára gamla Eyrún Ýr Pálsdóttir og Hrannar frá Flugumýri II báru sigur úr býtum í A-flokki gæðinga á Landsmóti hestamanna sem fram fór á Hólum í Hjaltadal um helgina. Eyrún er fyrst kvenna til að sigra í flokknum en hún segir það ekki skipta höfuðmáli, þótt vissulega sé það skemmtilegt að vera fyrsta konan til að sigra. 

„Við konur hefðum alveg eins getað verið löngu búnar að vinna þetta,“ segir Eyrún í samtali við mbl.is. „Ég pæli nú ekki mikið í því en þetta er vissulega gaman, ég bara skil ekkert í því að við höfum ekki verið búnar að því fyrr,“ segir hún létt í bragði en hún var jafnframt eini kvenkyns knapinn í úrslitum.

Frétt mbl.is: Gekk allt upp

Heiðarleiki hestanna heillar

Eyrún er útskrifaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og er nú sjálfstætt starfandi við tamningar og kennslu en hestamennskan er bæði atvinna hennar og helsta áhugamál. „Ég er náttúrlega alin upp í þessu, búin að vera í þessu frá barnsaldri,“ segir Eyrún.

Hún er frá Flugumýri í Skagafirði en þar er rekið hrossaræktarbú. Gæðingurinn Hrannar er einmitt þaðan og er í eigu fjölskyldu Eyrúnar. Nú er Eyrún búsett á Suðurlandi þar sem hún rekur tamningastöð í Þorleifskoti. Hún annast bæði ræktun og tamningar og er með nokkra einstaklinga í vinnu.

Eyrún segir erfitt að útskýra hvað það er sem heillar við hestana. „Ég veit það eiginlega ekki, það er bara allt örugglega,“ segir hún en nefnir að heiðarleiki hestanna spili stóra rullu. „Þeir eru bara svona og þeir gera allt sem þeir geta fyrir mann,“ útskýrir Eyrún. „Þetta er allt öðruvísi en með okkur mannskepnuna; þeir koma bara til dyranna eins og þeir eru klæddir yfirleitt.“

„Áfram Eyrún, áfram Eyrún“

Eyrún segir tilfinninguna við að landa sigrinum á landsmóti hafa verið æðislega og virkilega skemmtilegt sé að ná þessum árangri.

Auk þess að sigra í A-flokki hlaut Eyrún Gregresen-styttuna svokölluðu, verðlaun veitt þeim knapa sem skarar fram úr í A- eða B-flokki gæðinga og sýnir prúðmannlega reiðmennsku á vel hirtum hesti. 

„Það er náttúrlega mikill heiður. Ég hef reyndar alltaf sett hestinn minn í fyrsta sæti og það er mjög gaman að fá verðlaun fyrir það,“ segir Eyrún sem segist alltaf hafa lagt áherslu á að hestunum hennar líði vel og um þá sé vel hugsað.

Hún segir flesta keppinauta sína í úrslitum samgleðjast sér en kveðst þó vita að það geri þeir ekki allir. „En það ætluðu náttúrlega allir að vinna, það er mjög sárt fyrir þá sem vinna ekki. En flestir samgleðjast mér, ég er alveg viss um það.“

Hún kveðst hafa verið hrærð yfir stuðningnum sem hún hafði í keppninni enda á hún bæði breiðan hóp vina og stóra fjölskyldu. „Ég eiginlega átti ekki til orð þegar ég reið inn í úrslitin, stuðningurinn var svakalegur,“ segir hún. „Þegar ég reið inná þá var bara öskrað áfram Eyrún, áfram Eyrún, og það var alveg ótrúlega skemmtilegt.“

Hrannar frá Flugumýri og Eyrún Ýr Pálsdóttir sigruðu í A-flokki …
Hrannar frá Flugumýri og Eyrún Ýr Pálsdóttir sigruðu í A-flokki gæðinga á Landsmóti hestamanna um helgina. mbl.is/ Þórunn

Hrannar hestur á heimsmælikvarða

Eyrún hefur fylgt Hrannari meira og minna frá upphafi en hún tók við honum fyrst þegar hann var fjögurra vetra. Hrannar er tíu vetra í dag en hann hefur verið hjá Eyrúnu óslitið síðan hann var sex vetra. „Hann er minn aðalhestur að sjálfsögðu en ég er með 25 til 26 önnur hross þannig að það þarf að hugsa um þau alveg eins og hann.“

Hrannar er meðal bestu kynbótahesta í heimi með aðaleinkunnina 8,85, sem telst gríðarlega góð einkunn. Hann vann landsmótið í Reykjavík sex vetra gamall sem kynbótahross og er ríkjandi Íslandsmeistari í fimmgangi.

„Þannig að þetta er gríðarlega verðmætur hestur,“ segir Eyrún um hvort sigurinn hafi áhrif á verðmæti Hrannars. „En ég veit ekki hvort hann hækkar eitthvað í verði við þetta.“

Ætla ekki á Íslandsmót

„Ég var búin að hugsa mér að ef ég ynni landsmót, þá fengi hann frí og fengi að fara í merar, hann er náttúrlega graðhestur,“ segir Eyrún og hyggst því ekki mæta með hann á Íslandsmót í ár.

Spurð hvort þau stefni á heimsmeistaramót segir hún að ekki hafi verið tekin afstaða til þess. „Það þarf bara að ræða það, ef ég fer með hann á heimsmeistaramót þarf ég í fyrsta lagi að vinna fyrir því, komast inn,“ segir Eyrún og bætir við að í öðru lagi þyrfti að selja hestinn þar sem óheimilt væri að flytja hann aftur heim. „Og það er bara spurning hvort við tímum því.“

Sjálf segist hún ekki heldur hafa hugsað mikið út fyrir landsteinana en útilokar þó ekki að gaman væri að reyna fyrir sér erlendis. „Ég fer svolítið út að kenna, ég er náttúrlega reiðkennari. En það væri nokkuð gaman að fara, væri mjög gaman að keppa á heimsmeistaramóti til dæmis,“ segir Eyrún en hún fer af og til og kennir í Danmörku.

Mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér

Aðspurð hvort aðrir draumar hafi þurft að sitja á hakanum vegna hestamenskunnar segir hún svo ekki vera. „Nei, það hefur bara alltaf verið þannig að hestar voru alltaf og eru alltaf númer eitt, tvö og þrjú. Það hefur aldrei neitt annað komist að,“ útskýrir Eyrún.

„Þetta er bara það eina sem ég kann,“ segir Eyrún hlæjandi, „ég er bara í þessu og þá er ég ekkert að hugsa um neitt annað. Þetta er bara vinna 24/7 og það kemst ekkert annað að.“

Spurð hvort hún hafi einhver ráð fyrir ungar konur sem stefna langt í hestunum segir Eyrún að mikilvægast sé að hafa trú á sjálfum sér. „Sama hvort þú ert kvenmaður eða karlmaður, ég held að við konur eigum ekkert síður að geta en karlar. Það bara skiptir máli að hafa trú á sjálfum sér og bera virðingu fyrir hestinum sínum og þekkja hann,“ segir Eyrún að lokum. 

Eyrún er sem fyrr segir á kafi í hestunum, þeir eru líf hennar og yndi, en hún hyggst þó taka sér stutt frí í haust og reyna að skreppa til útlanda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert