Innheimtar tekjur ríkissjóðs aukast um 19,6%

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið. Þorkell Þorkelsson

Handbært fé frá rekstri nam 15,2 milljörðum á fyrstu fimm mánuðum ársins samanborið við að vera neikvætt um 32,4 milljarða í fyrra. Þessi breyting skýrist að stórum hluta af stöðugleikaframlagi sem greitt var á árinu, en í janúar námu greiðslurnar 17 milljörðum og 25 milljörðum í mars. Þetta kemur fram í greiðsluuppgjöri ríkissjóðs. 

Innheimtar tekjur á tímabilinu námu 317,8 milljörðum og jukust um 19,6% frá sama tíma í fyrra. Stöðugleikaframlagið, óreglulegir liðir og arðgreiðslur bjaga þennan samanburð þó að því er fram kemur í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Á tímabilinu nam stöðugleikaframlagið 42 milljörðum og arðgreiðslur 15,9 milljörðum. Í fyrra voru arðgreiðslur hins vegar 13 milljarðar. Sé leiðrétt fyrir þessum liðum var aukningin um 10% og endurspeglar það almennar launahækkanir.

Skattar á tekjur og hagnað jukust um 9,7% milli ára og voru samtals 108,8 milljarðar. Tekjuaukninguna má rekja til 22% aukningar á tekjuskatti einstaklinga sem nam 65,6 milljörðum á fyrstu fimm mánuðum ársins og var 5,6 milljörðum umfram áætlun. Aftur skýrist breytingin af hækkun launa á vinnumarkaði.

Tekjuskattur lögaðila var 20 milljarðar sem er 1,0 milljarði undir áætlun en um er að ræða bráðabirgðainnheimtu, að því er segir í tilkynningunni. Fjármagnstekjuskattur nam alls 23 milljörðum. Ef leiðrétt er fyrir fjármagnstekjuskatti greiddum af ríkissjóði sjálfum nam hann alls 19,2 milljörðum og var 1,7 milljörðum yfir áætlun.

Skattar á vöru og þjónustu voru 95,5 milljarðar sem er 5,9 milljörðum yfir áætlun. Þar af nam virðisaukaskattur 65,7 milljörðum og var 6 milljarða umfram áætlun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka