Formaður LÆF hættir eftir fjárdráttarmál

Landssamband æskulýðsfélaga er með aðsetur í Hinu húsinu í Pósthússtræti.
Landssamband æskulýðsfélaga er með aðsetur í Hinu húsinu í Pósthússtræti. Ljósmynd/Af vef Reykjavíkurborgar

Formaður Landssambands æskulýðsfélaga sagði í vikunni af sér eftir að upp komst um meintan fjárdrátt hjá félaginu. Stjórn þess ætlar í næstu viku að leggja fram kæru á hendur formanninum fráfarandi, en um er að ræða óútskýrðar millifærslur upp á um 400 þúsund krónur.

Sigurður Sigurðsson, varaformaður landssambandsins og starfandi formaður, staðfestir þetta í samtali við mbl.is, en upp komst um málið í vikunni við almenna athugun á reikningum félagsins. Formaðurinn tók við embættinu í febrúar á þessu ári. Sigurður segir að upphæðin hafi nú verið greidd til baka að fullu, en að sambandið líti þetta mál alvarlegum augum. Félagið hafi rætt við lögregluna og fengið tíma í næstu viku þar sem lögð verði fram formleg kæra í málinu.

Eftir að málið kom upp sagði formaðurinn af sér að sögn Sigurðar, en um alvarlegt trúnaðarbrot sé að ræða. Segir hann að kallaður hafi verið saman fundur hjá fulltrúaráði félagsins þar sem nýr formaður verði kosinn.

Landssamband æskulýðsfélaga er regnhlífarsamtök 27 æskulýðsfélaga á Íslandi. Aðildarfélög eru frjáls félagasamtök sem starfa á landsvísu. Félagið fær hluta tekna sinna með samstarfssamningi við ríkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert