Andlát: Eggert Gíslason skipstjóri

Eggert Gíslason
Eggert Gíslason

Eggert Gíslason skipstjóri lést á Hrafnistu í Reykjavík, 12. júlí sl., 89 ára að aldri. Eggert fæddist 12. maí 1927 í Kothúsum í Garði, sonur hjónanna Gísla Árna Eggertssonar skipstjóra og Hrefnu Þorsteinsdóttur.

Eggert var landskunnur aflamaður og á að baki einstaklega glæsilegan skipstjórnarferil. Hann hóf sjómennsku á unga aldri, fyrst á smábátum og síðar sem formaður á stærri bátum og skipum. Hann lauk skipstjórnarprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1949.

Eggert var oftast kenndur við skipsnafnið Víði, Eddi á Víði, en hann stýrði þremur skipum með því nafni fyrir útgerð Guðmundar Jónssonar á Rafnkelsstöðum í Garði. Eggert stofnaði útgerðarfélagið Sjóla hf. haustið 1964 ásamt Einari Árnasyni og lét smíða nótaskipið Gísla Árna RE 375 í Noregi. Eggert var skipstjóri á Gísla Árna til ársins 1978. Síðasti bátur sem Eggert stýrði var Njáll RE 275 en hann var gerður út á net og dragnót. Eggert fór í land 1989 en starfaði eftir það við útgerð Sjóla hf.

Eggert varð goðsögn í lifanda lífi. Hæfileikar hans við fiskveiðar, sérstaklega síldveiðar, hafa verið fræðimönnum rannsóknarefni og fjöldi greina um hann skrifaður í innlend og erlend vísindarit. Eggert var m.a. frumkvöðull að notkun fiskileitartækja við síldveiðar.

Eiginkona Eggerts var Regína Ólafsdóttir, d. 2016, frá Kleifum í Ólafsfirði. Þau eignuðust fjögur börn; Soffíu Margréti, Gísla Árna, Hrefnu Unni og Ólaf. Bræður Eggerts, sem einnig voru landskunnir skipstjórar, voru Þorsteinn og Árni Gíslasynir. Eggert var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1964 fyrir störf sín.

Útför Eggerts verður gerð frá Áskirkju í Reykjavík miðvikudaginn 20. júlí og hefst athöfnin kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert