Varar við fölskum vinabeiðnum

Notendur Facebook þurfa að hafa varann á.
Notendur Facebook þurfa að hafa varann á. AFP

Nokkuð hefur borið á því að undanförnu að notendur Facebook, hér á landi sem víðar, fái torkennilegar vinabeiðnir frá fólki, víða í heiminum, sem það þekkir ekki. Um er að ræða falskar vinabeiðnir en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú tekið saman einföld ráð til þess að greina slíkar beiðnir sem og falskar persónur á samfélagsmiðlinum.

Er tilgangurinn yfirleitt að svíkja og pretta, að sögn lögreglunnar. 

Birti lögreglan samantektina á facebooksíðu sinni síðdegis í dag.

„Viðkomandi getur verið að leiða þig í fjárkúgunargildru, fá þig til að senda af þér nektarmyndir eða myndskeið. Svikin geta líka verið að viðkomandi á sérstaklega bágt og þarf lán eða stuðning af því að „náinn ættingi dó“ eða að viðkomandi sé fastur á vondum stað. Svikarinn gæti líka laumað að þér „öruggri leið til græða mikla peninga hratt“ ef þú sendir þeim peninga til að fjárfesta í ómótstæðilegu tilboði. Þá geta svikin snúist um það að viðkomandi stofni til rómantísks sambands við þig og þú sért sálufélagi viðkomandi.

En svindlarinn þarf peninga til að fljúga til þín, þarf „aðstoð“ við að koma til þín pakka eða stofna bankareikning. Þetta er ekki tæmandi listi en þetta eru þau algengustu form sem við höfum séð og leitt til raunverulegra fjársvikamála hér á Íslandi. Þessi flokkur svindls á ensku hefur samheitið „Trust Scam“/„Confidence scam“ eða traustssvindl en svikarinn reynir að koma á sambandi og notar einhvers konar tælingu sem hvata,“ segir lögreglan.

Mynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Hvað getur þú þá gert?

Á enga vini eða örfáa

„Lögreglan mælir með því að fólk venji sig á öryggisvitund og góða siði. Yfirleitt er auðvelt að sjá ef þú færð falska vinabeiðni.

1. Augljósasta vísbendingin er að það er lítið sem ekkert á þessum prófíl. Kannski ein mynd og önnur í bakgrunni. Viðkomandi á jafnvel enga vini eða örfáa. Raunverulegt fólk á marga pósta um allt og ekkert og fólk er að setja „like“ eða svara þeim. Falskar persónur eiga oft ekkert eðlilegt á sinni síðu. Það eru engar líkur á því að manneskja sem er að stofna reikning á fésbókinni eða öðrum miðlum geri það að sínu fyrsta verki að senda vinabeiðni á þig af handahófi.

- Því er við að bæta að það er séns að þið eigið einn eða nokkra sameiginlega vini. Ekki láta það gabba ykkur, skoðið alltaf síðu viðkomandi og sjáið hvort hún sé eðlileg. Látið jafnvel vini ykkar vita að þeir séu komnir með varasaman vin með því að senda þeim einkapóst.

2. Stundum er prófíllinn algjört bull með fáránlegum villum, eins og hann Páll Georgsdóttir sem er hún. Þess konar eru augljós hættumerki.

Hermenn og sætar stelpur

3. Hermenn og sætar stelpur. Í hreinskilni sagt þá er heimurinn ekki fullur af sætum stelpum og hermönnum sem vilja bara kynnast þér. Alvöru hermenn og sætar stelpur eiga sína vini og það dugar þeim fínt og þau þurfa ekki að senda vinabeiðnir út í bláinn. Ef þú færð slíka vinabeiðni frá einhverjum sem þú þekkir ekki er öruggt að hér er eitthvað gruggugt á ferðinni.

4. Hverjir eru vinir viðkomandi? Ef einhver á einsleitan vinahóp, sæt stelpa sem er bara með karlmenn eða maður sem safnar konum á vissum aldri, þá er eitthvað grunsamlegt á ferð.

5. Fáar myndir og bara í prófíl/bakgrunn er mjög varasamt.

6. Fáir póstar og ekkert frá viðkomandi sjálfum er mjög varasamt.

7. Skoðaðu vinabeiðnina í tölvu en ekki síma. Það er miklu auðveldara að sjá falskar vinabeiðnir í tölvu en síma sem er með mun minni skjá og aðra uppsetningu.

8. Ef þú ert ekki alveg viss og samþykkir vinabeiðnina skoðaðu strax heimasíðuna og ef ofantalið á við lokaðu samstundis á viðkomandi þannig að þeir hafi ekki aðgang að þinni síðu og þú sért ekki skráður inn sem vinur sem gæti síðan ruglað alvöruvini þína,“ segir í samantekt lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert