Einsleitni kemur okkur ekkert áfram

„Það eru sóknartækifæri á mörgum stöðum fyrir konur,“ segir Þórdís …
„Það eru sóknartækifæri á mörgum stöðum fyrir konur,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður FKA. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hefur verið formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, frá árinu 2013 en á borði félagsins hafa verið stærri og smærri verkefni sem snúa öll að því að styrkja konur í atvinnulífinu. Sjálf kynntist Þórdís Lóa félaginu þegar hún ákvað að söðla um og skipta alfarið um starfsvettvang.

„Í grunninn er ég menntaður félagsfræðingur og hafði unnið hjá hinu opinbera í fjölda ára þegar ég ákvað eftir að hafa lokið námi í viðskiptafræði að fara út á almenna vinnumarkaðinn. Ég hafði stýrt stórri einingu hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, kennt í Háskóla Íslands, setið í fastanefndum fyrir ráðherra – lifað og hrærst í opinbera kerfinu og þar innan þekkti ég allt og alla; aðferðafræðina, fólkið og leikreglurnar. Ég fékk því svolítið sjokk þegar ég komst að því að tengslanet mitt náði ekkert út fyrir opinbera geirann og ég þekkti engan í viðskiptalífinu,“ segir Þórdís Lóa.

Þegar Þórdís Lóa áttaði sig á stöðunni lét hún það vera eitt sitt fyrsta verk að ganga í FKA en hún og eiginmaður hennar voru þarna komin út í fyrirtækjarekstur; áttu og ráku Pizza Hut bæði hérlendis og í Finnlandi.

„Ég sá að ef ég ætlaði að ná einhverjum árangri í viðskiptalífinu – ná að gera góða samninga og svo framvegis – yrði maður að þekkja fólk. Auk FKA gekk ég því líka í Viðskiptaráð og fór þannig skipulega í það að tengja mig inn í viðskiptalífið.“

Þegar FKA var stofnað árið 1999 var það einmitt upplifun kvenna eins og Þórdísar Lóu sem varð til þess að félaginu var komið á fót að undirlagi þáverandi iðnaðarráðherra en könnun á högum íslenskra kvenna í atvinnurekstri sýndi að þeim fannst þær vanta stuðning. Fyrst var félagið hugsað fyrir konur í atvinnurekstri en síðar var lögum félagsins breytt og það opnað fyrir konur í atvinnulífinu sem geta þá verið eigendur, setið í stjórn eða verið í stjórnunarstöðu í fyrirtæki.

„Ég heyri mjög gjarnan konur í FKA segja að þær hafi ekki áttað sig á hvað tengslanetið er mikilvægt – allir hafi talað um það en þær hafi ekki áttað sig á því hvað það raunverulega þýddi. Mér finnst aftur á móti eins og ungu konurnar séu mjög meðvitaðar um að þetta skiptir máli og það er mjög breytt frá því sem var fyrir 10-15 árum.

Það að eiga sterkt tengslanet er miklu dýpra í menningu karlmanna því þótt konur hafi frá örófi alda verið afar öflugar í atvinnulífinu – stýrt stórum heimilum og heilu sveitunum meðan karlmennirnir fóru á sjóinn, að heyja og til annarra verka – þá höfðu þær ekki sömu tækifæri til að fara út og hitta fólk. Karlmennirnir gátu farið í verkefni utan heimilisins, hitt hópa af öðrum karlmönnum og ræktað tengsl sín á milli.“

Þegar Þórdís Lóa starfaði í Finnlandi hitti hún bandarískan prófessor á fundi með viðskiptaráðinu þar í landi þar sem verið var að skoða hvernig Finnar gætu aukið útflutning sinn. „Ég geymi alltaf með mér það sem hann sagði um mikilvægi þess að mynda og rækta tengsl og að gera það á vinnutíma. Það væri manns hlutverk sem stjórnanda og partur af starfinu; að einangrast ekki. Konur eru að pluma sig vel í stjórnunarstöðum þrátt fyrir að vera kannski einungis innan um karlmenn en um leið upplifa margar hverjar sig einangraðar í slíkum aðstæðum.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert