Mótfallin byggingu sjúkrahúss í Mosfellsbæ

Íbúahreyfingin tekur einarða afstöðu gegn byggingu sjúkrahúss og sjúkrahótels við …
Íbúahreyfingin tekur einarða afstöðu gegn byggingu sjúkrahúss og sjúkrahótels við Sólvelli í Mosfellsbæ mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íbúahreyfingin tekur einarða afstöðu gegn byggingu sjúkrahúss og sjúkrahótels við Sólvelli í Mosfellsbæ og telur að skynsamlegra hefði verið að leggja þverfaglegt mat á verkefnið fyrirfram. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Íbúahreyfingin sendi frá sér núna í kvöld.

Í tilkynningunni segir að fréttir um samning Haraldar Sverrissonar, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, við erlenda fjárfesta um lóð undir sjúkrahús og -hótel við Sólvelli hafi víða vakið hörð viðbrögð. „Íbúahreyfingin hefur tekið einarða afstöðu gegn framkvæmdinni sem hún telur virka eins og illa undirbúna tilraun til að einkavæða íslenska heilbrigðiskerfið og kalla á stórfelldan innflutning á erlendu vinnuafli, án þess að fyrir liggi hvernig takast skuli á við það verkefni. Frá skipulagslegum sjónarhóli er staðsetningin auk þess afleit; í útjaðri íbúðarbyggðar í Reykjahverfi, sem er friðsælt hverfi fjarri aðalsamgönguæðum.“

Skynsamlegra hefði verið að leggja þverfaglegt mat á verkefnið fyrirfram, meðal annars á áhrif þess á íslenska heilbrigðiskerfið og vinnumarkaðinn, auk þess sem skoða hefði átt staðarval í samráði við og út frá hagsmunum íbúa, starfsmanna og almenningssamgangna.

„Athygli vekur að fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarráði skuli ekki hafa komið í veg fyrir samninginn við MCPB ehf., en honum hefði verið í lófa lagið að gera ágreining um tillöguna, sem hefði þá orðið til þess að hún hefði ekki fengist samþykkt, heldur ákvörðunin falin bæjarstjórn. Á landsvísu hefur Samfylkingin lagst gegn einkavæðingu heilbrigðiskerfisins en svo virðist sem félagarnir í Mosfellsbæ séu á öðru máli. Langt er í að ráðist verði í þetta verkefni og því vandséð af hverju bæjarstjóra lá svona mikið á að fá verkefnið samþykkt í sumarfríi bæjarstjórnar,“ segir í yfirlýsingunni. 

Á síðasta kjörtímabili hafi Íbúahreyfingin gert verulegar athugasemdir við tillögur bæjarstjórnarmeirihluta D- og V-lista um sölu á lóð undir einkasjúkrahús í Mosfellsbæ, en þá var verkefnið í nafni Primacare og heilsueflandi samfélags. „Á þeirri afstöðu hefur engin breyting orðið og þykir okkur rétt að árétta það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert