Sátu í gluggafölsum bifreiðar á ferð

Annar farþeginn var aðeins sextán ára og málið því tilkynnt …
Annar farþeginn var aðeins sextán ára og málið því tilkynnt til barnaverndar. mbl.is/Július

Klukkan 1:18 í nótt stöðvaði lögregla bifreið við Grandagarð þar sem tveir farþegar voru að hluta út úr bifreiðinni og því ekki í öryggisbelti. Samkvæmt upplýsingum úr dagbók lögreglu sátu farþegarnir í gluggafalsi hurða á meðan bifreiðinni var ekið áfram. Annar farþeginn var aðeins sextán ára og málið því tilkynnt til barnaverndar.

Skömmu síðar eða klukkan 1:25 var bifreið stöðvuð við N1 í Ártúnsholti. Þar var ökumaðurinn, sautján ára stúlka, grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Það mál var einnig tilkynnt til barnaverndar.

Klukkan 19:36 handtók lögregla par í austurhluta Reykjavíkur, grunað um umferðaróhapp, akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna.  Parið var vistað í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Þá var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi sem var til vandræða á slysadeild Landspítalans um níuleytið í gærkvöldi. Hann var vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.

Klukkan 17:56 voru jafnframt höfð afskipti af ölvaðri konu við Norðurbakka í Hafnarfirði og hún vistuð í fangageymslu meðan ástand hennar lagast.

Þá voru afskipti höfð af manni á heimili í Grafarholti vegna vörslu fíkniefna en hann framvísaði ætluðum fíkniefnum.

Klukkan 3:22 var tilkynnt um eld í bifreið við Vogaskóla. Bifreiðin er talin ónýt og að loknu slökkvistarfi var hún flutt af vettvangi.  Ekki er vitað um eldsupptök.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert