„Ætlar að snúa atburðarásinni við“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Golli

„Það hefur verið hálfvandræðaleg þögn innan Framsóknarflokksins um málefni Sigmundar Davíðs. Það bendir til þess að það er ekki óbrotin samstaða um að hann snúi aftur,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, um endurkomu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í stjórnmálin.

Sigmundur sendi bréf á félagsmenn Framsóknarflokksins í gær þar sem hann boðaði endurkomu sína í stjórnmálabaráttuna. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag fór hann svo yfir komandi verkefni ríkisstjórnarinnar.

Sjá frétt mbl.is: Fer á fullt í stjórnmálabaráttunni

„Það að hann ætli sér að reyna að koma sér inn í stjórnmálin aftur er hans hugmynd og það er ekkert sem bannar honum það að reyna fyrir sér. Hann er formaður Framsóknarflokksins enn þá þótt hann sé ekki forsætisráðherra, af ástæðum sem eru þekktar.“

Það sem vekur meiri athygli er það hvernig hann kynnir þessa boðuðu endurkomu. Honum er frjálst að reyna að komast á framboðslista Framsóknarflokksins fyrir næstu kosningar og ná endurkjöri sem formaður. Hann ræður því ekki einn, það er eitthvað sem framsóknarmenn ráða,“ segir Grétar.

Furðuleg ummæli varðandi kosningar í haust

Fylgi Framsóknarflokksins jókst í síðustu könnun um 1,9 prósentustig og er nú 8,3%. Er það enn á svipuðum stað og þegar Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra.

Sjá frétt mbl.is: Píratar með 26,8% fylgi

„Þetta fylgi virðist vera á svipuðum slóðum og það var í lok apríl. Það hækkaði eftir það eitthvað aðeins, það hefur kannski verið af því að minna umdeilt fólk fór í forystu og tók slaginn fyrir framsókn í ríkisstjórnarsamstarfinu. En svo virðist vera sem það sé eitthvað heldur að dala þetta fylgi þannig að þeir séu ekki á of góðum stað miðað við að það sé stutt í kosningar.“

Sigurður Ingi forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sögðu í ræðu sinni í Alþingishúsinu í apríl að kosningar yrðu í haust, en ekki var gefin dagsetning.

Sjá frétt Morgunblaðsins: Efi um haustkosningar

„Á sínum tíma á tröppufundinum fræga í Alþingishúsinu stigu þeir Bjarni og Sigurður Ingi fram og sögðu að það yrðu kosningar í haust. Frumkvæðið að kosningum í haust kom frá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum jafnvel þótt það hafi sýnt sig að ekki allir framsóknarmenn voru sammála því,“ segir Grétar en Sigmundur Davíð segir í bréfi sínu til flokksfélaga að „hluti samstarfsmanna Framsóknarflokksins í röðum sjálfstæðismanna sé af einhverjum ástæðum áhugasamur um að flýta alþingiskosningum.“ 

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri. mbl.is

„Í ljósi þess að frumkvæðið að kosningum í haust kom frá Sigurði Inga og Bjarna Benediktssyni eru ummæli Sigmundar Davíðs, um að þetta sé einhver afmörkuð skoðun hluta Sjálfstæðisflokksins, furðuleg,“ segir Grétar.

„Það hlýtur að vera að marka það eitthvað þegar formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra framsóknar segja að það verði kosningar í haust. Sigmundur Davíð er nú óbreyttur þingmaður og auðvitað formaður framsóknar. Hann getur reynt að vinna þessari skoðun sinni fylgi innan síns flokks, en ég held að það geti orðið svolítið þungt undir fæti og að það yrði ekki mikil gleði hjá stjórnarandstöðuflokkum yfir því.“

„Það er greinilegt að það myndi mæta mikilli andspyrnu og ég held að almenningur muni spyrja sig til hvers þeir hafi verið að tilkynna þetta á sínum tíma að eigin frumkvæði, Bjarni og Sigurður Ingi. Það yrði mjög sérstakt ef menn ætluðu að hlaupa frá haustkosningum. Ég sé ekki hvernig þeir gætu gert það án þess að skaðast pólitískt.“ 

„Það er greinilegt að Sigmundur Davíð ætlar að reyna að snúa atburðarásinni eitthvað við. Hvernig honum tekst það fer alveg eftir því hvernig honum tekst að komast til valda innan Framsóknarflokksins, eða endurnýja umboð sitt innan flokksins. Jafnvel þó að honum takist það er ekki þar með sagt að hann fái Sjálfstæðisflokkinn með sér í að fresta kosningum. Það gæti valdið jarðskjálfta á stjórnarheimilinu,“ segir Grétar Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert