Gerðist óvænt brúðkaupsljósmyndari

Hin nýgiftu brúðhjón alsæl með stóra daginn og Seljalandsfoss í …
Hin nýgiftu brúðhjón alsæl með stóra daginn og Seljalandsfoss í baksýn. Ljósmynd/Árni Tryggvason

Árni Tryggvason, leiðsögumaður og ljósmyndari, birti fallega mynd af brúðhjónum á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar, í dag. Árni, sem er leiðsögumaður hjá Saga Travel, brá sér um stund í hlutverk brúðkaupsljósmyndara er hann sá verðandi brúðhjón í vanda við Seljalandsfoss.

„Ég var að koma með hóp af ferðamönnum í hefðbundna heimsókn að Seljalandsfossi, þegar ég sá par sem verið var að gefa saman,“ segir Árni í samtali við mbl.is. „Þau voru þar greinilega bara tvö ein með fulltrúa sýslumanns sem var að pússa þau saman.“

Brúðguminn hafi verið með ágætismyndavél og verið hlaupandi til og frá til að reyna að ná myndum af athöfninni. „Ef maður er að gifta sig þá hangir maður nú með brúðinni út athöfnina,“ segir Árni og hlær.  

Sér hafi því runnið blóðið til skyldunnar og hann ákveðið að bjóða fram aðstoð sína. „ Ég gekk því til þeirra og sagði þeim að ég væri ljósmyndari. Ég sé með myndavélina í bílnum og hvort ég eigi ekki bara að sækja græjurnar og taka af þeim almennilegar myndir. Því næst sótti ég vélina og tók þarna nokkur góð skot og uppskar mikið þakklæti fyrir,“ segir Árni, sem afritaði myndirnar síðan yfir á myndavélakort parsins.  „Það er stundum voðalega góð tilfinning að fá þakklæti að launum, þótt maður ætli sér ekki að taka krónu fyrir.“

Brúðguminn Lee er frá Bretlandi, en brúðurin Valerie frá Bandaríkjunum og segir Árni þau hafa átt óskipta athygli annarra ferðamanna við fossinn. „Þetta var falleg stund og athöfninni var fagnað með lófataki af öðrum ferðamönnum.“  

Árni kveðst vissulega hafa lent í óvenjulegum aðstæðum áður í tengslum við vinnuna, en hann hafi þó ekki gerst brúpkaupsljósmyndari með þessum hætti áður. „Aftur á móti fékk ég það verkefni í vetur að fara með par upp á Sólheimajökul þar sem hann bað hennar inni í íshelli, en það var fyrirframskipulagt,“ segir Árni sem hefur starfað sem leiðsögumaður í tvö ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert