„Getur hljómað eins og þversögn“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson notaði hugtakið „róttæk skynsemishyggja“ í bréfi sínu …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson notaði hugtakið „róttæk skynsemishyggja“ í bréfi sínu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það getur hljómað svolítið eins og þversögn að nota hugtakið róttæk skynsemishyggja,“ segir Henry Alexander Henrysson, dósent við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, um notkun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins á hugtakinu, í bréfi sínu til flokksmanna í gær.

Þar segir Sigmundur að með róttæka skynsemishyggju að vopni hafi Íslendingar náð meiri árangri á undanförnum árum en flest önnur lönd. Fyrir vikið sé staða Íslands að mörgu leyti betri en annarra og að við höfum haft sigur í verkefnum sem margir töldu óframkvæmanleg.

Andskynsemishyggjan birtist í rómantíkinni

Henry segir hugtakið þó vera heimatilbúið og það hafi enga merkingu eitt og sér. Hugtakið skynsemishyggja er þó gamalt hugtak í heimspeki sem notað var á 17. og 18. öld til að lýsa hugmyndum sem uppi voru á upplýsingatímanum. „Andskynsemishyggjan er svo viðbragð sem kemur við skynsemishyggjunni á 19. öld með til dæmis rómantíkinni og öðrum hugmyndum,“ segir Henry.

Henry Alexander Henrysson, doktor í heimspeki og aðjúnkt við sagnfræði …
Henry Alexander Henrysson, doktor í heimspeki og aðjúnkt við sagnfræði og heimspekideild Háskóla Íslands.

„Á 20. öldinni fer þetta hugtak svo í margar mismunandi áttir eins og oft gerist við hugtök. Skynsemishyggja getur leitt út í rökhyggju, að þú verðir að færa rök fyrir þínu máli. Stundum merkir það að þú lokir á aðrar kenndir en skynsemina, og að þú notir rökgreiningu til að greina vandamál.

Ýmsar róttækar hugmyndir eru einmitt oft í andstöðu við skynsemishyggju. Þetta hljómar svolítið eins og þversögn að nota hugtakið róttæk skynsemishyggja en það sem hann á sennilega við er að hann aðhyllist skynsemishyggju í öllum ákvörðunum sem eru teknar eða eitthvað því um líkt. Þá er þetta nú ekkert nýtt eða merkilegt, og ég efast um að þú finnir stjórnmálamann á Vesturlöndum sem segist ekki aðhyllast slíkt,“ segir Henry.

Henry segir að á ensku sé oft talað um hugtakið economic decision sem andstöðu við geðþóttaákvarðanir. „Þú skoðar öll gögn og metur þau í hverju tilviki í öllum málum. En þeir sem aðhyllast róttæka hugmyndafræði eru ekkert endilega hrifnir af slíkum ákvörðunum. Þannig að ég held að hann sé að tala um að taka ákvarðanir sem eru skynsamlegar að því leyti að þær varði hag heildarinnar og að allar hliðar séu skoðaðar. En það er ekkert róttækt við það.“

Skynsemishyggja og stefna stjórnmálaflokks

Henry varpar fram spurningunni hvernig skynsemishyggja á samleið með gildum stjórnmálaflokka. „Spurningin vaknar hvort ekki séu einhver gildi hjá Framsóknarflokknum sem ákvarðanir eru teknar út frá. Geta ákvarðanir teknar út frá gildum sem menn hafa rifist um verið skynsamlegar, eða taka þær mið af öðrum þáttum? Skynsemishyggja getur þýtt að þú takir skynsamlegustu ákvörðunina í hverju máli, að það sé ekkert annað sem leiði þig áfram. En eru ekki alltaf einhver leiðarljós sem liggja til grundvallar hjá stjórnmálaflokkum?“ spyr Henry og bætir við:

„Leiðarljósin geta svo líka verið skynsamleg. Eru leiðarljós í starfi flokksins eða á bara að taka skynsamlegar ákvarðanir í hverju tilviki? Það má spyrja ansi margra spurninga um hvað það þýðir að aðhyllast róttæka skynsemishyggju.“

Henry segir flesta stjórnmálaflokka á Vesturlöndum telja sig aðhyllast skynsemishyggju. „Annaðhvort á hann við að hann vilji gera eins og flestir stjórnmálaflokkar á Vesturlöndum og taka skynsamlegar ákvarðanir. Ef hann ætlar að marka sér sérstöðu með þessu hugtaki verður hann að skýra þetta betur.

Það getur vel verið að hann hafi vel grundaða pælingu að baki þessu hugtaki, en ég hef heyrt hann nota þetta hugtak áður og þá glottir maður út í annað,“ segir Henry.

Bakslag kemur við og við

Henry segir skynsemishyggju hafa verið hafða að leiðarljósi á Vesturlöndum um langt skeið. „Okkur farnast best þegar við beitum skynseminni. En síðan hafa verið settar fram ýmsar kenningar um hvað það merkir að beita skynseminni. Það er umræðan sem hefst á 17. öld. Þá koma fram kenningar og útlistanir á skynseminni og fjölluðu þær helst um það að greina skynsemi frá trú.“

Bakslag hefur síðan komið í skynsemishyggjuna við og við. 

„Þetta hefur verið leiðarljósið á Vesturlöndum í gegnum upplýsinguna. En síðan hefur komið bakslag reglulega þar sem menn hafa ofurtrú á skynseminni og segja hana leiða til annarra vandamála. Það er hugmyndasögulega greiningin á þessu hugtaki. En almennt held ég að við séum skynsemistrúar á Vesturlöndum og að við aðhyllumst skynsemistrú. Við notum hugtök eins og gagnrýnin hugsun til að varpa ljósi á það sem við eigum við,“ segir Henry að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert