Hitinn gæti orðið sá mesti í sumar

Það er afar gott veður á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana.
Það er afar gott veður á höfuðborgarsvæðinu þessa dagana. mbl.is/Styrmir Kári

Spáð er allt að 20 stiga hita suðvestanlands síðdegis í dag, samkvæmt Veðurstofu Íslands. Hitinn í Reykjavík er kominn í um 18 gráður sem er með því mesta sem hefur mælst í sumar.

Hitinn í sumar hefur mest farið í 18,9 gráður í borginni en það gerðist fyrr í þessum mánuði. Að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands kemur í ljós síðar í dag hvort hitinn í dag verður meiri.

Engar líkur eru aftur á móti á því að hitametið í Reykjavík verði slegið. Það var sett 30. júlí 2008 þegar hitinn mældist 25,7 gráður.

Spáð er álíka heitu veðri á höfuðborgarsvæðinu á morgun en eftir það fer að kólna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert