Sannkallað kvennaríki á Sprengisandi

Myndin var tekin af kvennahópnum framan við neyðarskýli Landsbjargar í …
Myndin var tekin af kvennahópnum framan við neyðarskýli Landsbjargar í Nýjadal við vaktaskipti hálendisvaktarinnar s.l. sunnudag. Frá vinstri: Þóra J. Jónadóttir, Inga Martel, Bríet Arnardóttir, Sabine Fischer, Auður Yngadóttir, Stefanía Ragnarsdóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir ásamt björgunarhundunum Skutuli og Syrpu.

Sjö konur höfðu ráð og völd í hendi sér á Sprengisandi í síðustu viku og segir Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir alþingismaður, sem þar var við hálendisgæslu, menn  ekki muna annað eins kvennaríki á miðhálendinu í annan tíma.

Auk Ólínu voru þær Auður Yngadóttir kennari, Bríet Arnardóttir yfirverkstjóri og Þóra J. Jónasdóttir dýralæknir einnig að sinna hálendisgæslu Landsbjargar í Nýjadal. Svo vildi til að í Nýjadal voru á sama tíma fyrir þær Stefanía Ragnarsdóttir landvörður og skálaverðirnir Inga Martel og Sabine Fischer. „Það var því sannkallað kvennaríki á Sprengisandi í síðustu viku,“ segir Ólína og kveður hálendisvaktina hafa gengið vel.

Ólína segir konum fara fjölgandi í björgunarsveitunum. „Þær eru vissulega flestar í slysavarnadeildum Landsbjargar, en þeim fer fjölgandi þótt við sjáum þær kannski ekki mikið í stjórn Landsbjargar eða í framvarðarlínunni,“ segir hún.

„Í síðustu viku bar hins vegar svo sérkennilega við að við fórum í Nýjadal fjórar konur úr þremur björgunarsveitum, sem eigum það allar sameiginlegt að vera í Björgunarhundasveit Íslands. Og þá stóð þannig á vöktum hjá landvörðunum að Stefanía var á landvarðarvaktinni og skálaverðirnir voru síðan líka konur. Þannig að það var grínast með það að miðhálendið væri í höndum kvenna þessa vikuna,“ segir Ólína hlæjandi og bætir við að það hafi gengið alveg ljómandi vel. „Við vorum þarna eins og sjö verndarvættir yfir svæðinu.“

Ólína segir björgunarsveitarkonurnar hafa leiðbeint ferðamönnum yfir ár og vöð, gefið upplýsingar, bundið um snúna ökkla og fleira þess háttar. „Fólk var almennt vel búið og bar sig vel að við vötnin þannig að það kom ekkert stórfenglegt upp á.“ Hún segir ferðamenn líka almennt hafa tekið leiðbeiningum vel. Langflestir þeirra séu líka vel búnir, gangi vel um og leiti sér upplýsinga, þó á því séu alltaf einhverjar undantekningar. „Skálaverðirnir eru þó sem betur fer farnir að stoppa fólk af ef þeir sjá augljós merki þess að fólk viti ekki hvað það er að fara út í.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert