Íslensku sumarleikarnir á Akureyri

Íslensku sumarleikarnir fara fram á Akureyri um verslunarmannahelgina.
Íslensku sumarleikarnir fara fram á Akureyri um verslunarmannahelgina.

Íslensku sumarleikarnir á Akureyri fara fram um verslunarmannahelgina. Undanfari sumarleikanna er fjölskylduhátíðin Ein með öllu en helsta breytingin á hátíðinni er sú að aukin áhersla verður á viðburði tengda hreyfingu. Skemmtanir fyrir alla fjölskylduna verða þó áfram á sínum stað.

Helgin fer af stað stað með föstudagsfílingi í boði N4 sem hefst með tónleikum sem jafnframt verður sjónvarpað beint á N4 milli klukkan 20:00 og 22:00. Þar koma meðal annars fram Dúndurfréttir, Aron Óskar og Gréta Salóme.

Á laugardaginn verða Sportvers-ofurleikarnir haldnir í fyrsta skipti á flötinni neðan við samkomuhúsið en þar verða þreyttar þrautir í anda crossfit. Á svæðinu verður einnig braut fyrir þá sem vilja spreyta sig án þess að þurfa að etja kappi við hraustasta fólk Akureyrar.

Barnaskemmtun verður frá klukkan 14:00 þar sem Lína Langsokkur, Einar Mikael og Páll Óskar munu stíga á svið. Kvöldinu lýkur svo með tónleikadagskrá í miðbæ Akureyrar frá klukkan 20:30 en þar koma fram Made in Sveitin, Killer Queen með Magna, María Ólafs og fleiri.

Sunnudagurinn verður lokasprettur sumarleikanna þegar þríþraut Íslensku sumarleikanna fer fram og kirkjutröppu-townhill á fjallahjólum þar sem færir fjallahjólakappar munu etja kappi. Botninn verður sleginn í hátíðina með sparitónleikum neðan við samkomuhúsið og verða fyrstu meistarar sumarleikanna krýndir. Fram koma tónlistarmenn á borð við Glowie, Skítamóral, Úlf Úlf, Kött Grá Pje og Stórsveit Hvanndalsbræðra. Kvöldinu lýkur svo með flugeldasýningu og munu smábátar bæjarins lita Pollinn rauðan.

Nánar um dagskrá sumarleikanna má lesa á sumarleikar.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert