Lokað fyrir nýja flugumferð í kringum Ísland

Lokað var fyrir nýja umferð inn á flugstjórnarsvæðið í kringum …
Lokað var fyrir nýja umferð inn á flugstjórnarsvæðið í kringum Ísland og brottfarir frá Keflavíkurflugvelli stöðvaðar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bilun kom upp í fluggagnakerfi í flugstöðinni í Reykjavík um hálftvöleytið í dag og var í kjölfarið sett í gang viðbragðsáætlun, sem felur í sér að lokað var fyrir nýja umferð inn á flugstjórnarsvæðið í kringum Ísland og brottfarir frá Keflavíkurflugvelli stöðvaðar.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir enn ekki vitað hvað olli biluninni, en viðbragðsáætlunin hafi falið í sér að nýrri umferð var ekki hleypt inn á svæðið meðan á viðgerðunum stóð. Á sama tíma hafi verið unnið að því að afgreiða þá umferð sem þar var fyrir.

„Það voru þó nokkrar flugvélar á leið inn á svæðið sem urðu að breyta um leið,“ segir Guðni. Samkvæmt norska miðlinum Avinor þurftu einhverjar vélar að snúa við og lenda í Bergen og aðrar í Glasgow vegna bilunarinnar. 

Verið sé að greiða úr þessu vandamáli og samkvæmt síðustu upplýsingum sé kerfið komið í gang og byrjað að hleypa inn umferð á ný. Einum hluta flugsvæðisins sé hleypt inn í einu og því taki einhvern tíma að greiða úr þessu. 

Síðasta vél frá Keflavíkurflugvelli fór í loftið um klukkan 14.40 og vél sem fara átti í loftið klukkan 15 er enn ekki farin af stað, þannig að einhverjar seinkanir verða á flugi fram eftir degi. Guðni segir enn ekki vitað hve langar tafirnar verða. „Það kemur í ljós á næstunni,“ segir hann en Isavia vonist til að allt verði komið í samt lag um sexleytið í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert