Lýsir þröngri sýn verndunar

Orkustofnun gagnrýnir að það gæti óhóflega mikillar varfærni við flokkun …
Orkustofnun gagnrýnir að það gæti óhóflega mikillar varfærni við flokkun virkjunarkosta í nýtingarflokki í skýrsludrögum verkefnisstjórnar. mbl.is/Brynjar Gauti

Orkustofnun telur forsendur flokkunar sem lýst er í drögum verkefnisstjórnar fyrir þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar byggja á veikum grunni og lýsa þröngri sýn verndunar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Orkustofnun sendir frá sér, en stofnunin veitir drögum verkefnastjórnarinnar að lokaskýrslu þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar ekki háa einkunn.

Segir Orkustofnun greiningarvinnuna í skýrsludrögunum vera ófullnægjandi, mat faghópa byggi á of þröngu sjónarhorni, skortur sé á samræmi í einkunnagjöf milli annars og þriðja áfanga og þá séu niðurstöður flokkunar handahófskenndar og ekki nægilega rökstuddar.

Orkustofnun gagnrýnir að það gæti óhóflega mikillar varfærni við flokkun virkjunarkosta í nýtingarflokki í skýrsludrögunum. Virkjunarkostir séu þar flokkaðir í biðflokk án þess að forsendur um skort á gögnum séu til staðar og í mörgum tilvikum séu atriði, sem eðlilega væru tekin fyrir á stigi umhverfismats framkvæmda, tilgreind sem ástæða fyrir því að virkjanir flokkast ekki í nýtingarflokk.

Þá séu forsendur fyrir einkunnagjöf þeirra tveggja faghópa sem flokkun verkefnisstjórnarinnar byggir á ekki fyrir hendi.  Það sé því mat Orkustofnunar að skýrsludrögin séu ófullnægjandi og setji ráðuneyti og Alþingi í erfiða stöðu við framhald verksins. 

Allir virkjunarkostir Orkustofnunar verði teknir til faglegrar skoðunar

„Mikilvægt er að vinna við næsta áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar byggi á traustari grunni en í þriðja áfanga og að allir virkjunarkostir sem lagðir verða fram af Orkustofnun verði teknir til faglegrar, alhliða skoðunar og að allar niðurstöður næstu verkefnisstjórnar verði ítarlegar og vel rökstuddar,“  segir í mati stofnunarinnar.

Tryggja verði að öll markmið laga um verndar- og orkunýtingaráætlun verði uppfyllt í umfjöllun verkefnisstjórna og forðast verði þrönga verndarstefnu, sem ekki taki tillit til mikilvægra málaflokka á borð við hnattræna hlýnun og súrnun sjávar.

Þá sé líka mikilvægt að „horfa til kerfisáhættu og þjóðaröryggis í orkumálum, möguleika til atvinnuuppbyggingar og orkuskipta fyrir næstu áratugi,“ en í því sambandi þurfi að mati Orkustofnunar að taka tillit til samkeppnissjónarmiða á raforkumarkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert