28 tíma seinkun á flugi til Dublinar

Verið er að vinna að viðgerð vélarinnar.
Verið er að vinna að viðgerð vélarinnar. Ljósmynd/WOW

Vél WOW air sem fljúga átti frá Kefla­vík­ur­flug­velli til Dublin­ar í Írlandi klukk­an 6:15 í morg­un seink­ar um tæp­ar 28 klukku­stund­ir. Fyrri áætlanir höfðu gert ráð fyrir 17 tíma seinkun og átti vél­in þá að leggja af stað klukk­an 23 í kvöld

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir ástæðuna vera bilun í flugvélinni. „Þetta er Boeing 757-vél sem WOW air er með í leigu. Við erum að brúa bilið á meðan við bíðum eftir nýrri Airbus 321-vél sem á að koma um næstu helgi, en því miður er Boeing-vélin biluð,“ segir Svanhvít.

Verið sé að vinna að viðgerð vélarinnar í flugskýli á Keflavíkurflugvelli og brottför sé nú áætluð klukkan tíu í fyrramálið. „Það er alltaf miður þegar svona gerist.“

Einn farþega vélarinnar hafði samband við mbl.is og lýsti yfir mikilli óánægju með að ekki hefði verið haft samband við sig, heldur hefði hann þurft að leita sjálfur eftir upplýsingum um nýjan flugtíma. Svanhvít segir oft gæta misskilnings hjá fólki hvað þetta varðar. „Þeir sem eru skráðir fyrir fluginu og gefa upp gsm-númer í bókuninni fá alltaf sendar upplýsingar frá flugfélaginu. Það kemur hins vegar fyrir að ekki er gefið upp rétt símanúmer eða netfang og þá fær fólk ekki upplýsingarnar.“

Svanhvít kveðst hafa talað við flugrekstrarstjórann fyrir stuttu. „Hann sagði að það væri búið að senda öllum farþegum tölvupóst og sms-skilaboð. Farþegar erlendis og tengifarþegar eru síðan komnir upp á hótel en Íslendingarnir hafa verið sendir heim.“

Hún segir WOW air fylgja reglum Samgöngustofu hvað varðar bætur fyrir þá sem telja sig verða fyrir tjóni vegna tafanna og bendir fólki á að kynna sér reglurnar á vef stofnunarinnar.

17 tíma seinkun á flugi til Dublinar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert