„Ég hlakka mest til að fara í sleik“

Þrátt fyrir að Þjóðhátíð hafi ekki verið formlega sett fyrr en klukkan 14:30 í dag, var mikið líf í Herjólfsdal á hádegi. Sumir voru enn ryðgaðir eftir Húkkaraballið sem fór fram í gærkvöldi, en aðrir voru tilbúnir í átök helgarinnar.

Mbl.is náði tali af nokkrum hressum viðmælendum sem voru mjög spenntir fyrir helginni. Sumir voru spenntir fyrir tónlistaratriðunum á meðan aðrir sögðust hlakka mest til að fara í sleik.

Líklega 15 þúsund manns til Eyja

Gera má ráð fyr­ir því að um 15 þúsund manns leggi leið sína til Vest­manna­eyja um helg­ina, og taki þátt í þess­ari stærstu helgi Eyja­manna. Mbl.is fylgdi ferðalöng­un­um úr hlaði.

Meðal þeirra hljóm­sveita sem koma fram á hátíðinni í ár eru Ag­ent Fresco, Úlfur Úlfur, Quarashi og Retro Stef­son. Auk þess munu Jón Jóns­son, Emm­sjé Gauti, Friðrik Dór, Ragga Gísla, Helgi Björns, Stop Wait Go, FM95BLÖ, Rigg, Jún­íus Mey­vant, Sverr­ir Berg­mann, Sylvía og Sindri Freyr stíga á stokk.

Dag­skrá Þjóðhátíðar má nálg­ast hér.

Gott veður í eynni um helg­ina

Veður­spá­in fyr­ir Þjóðhátíð í Vest­manna­eyj­um lít­ur mjög vel út fyr­ir dag­inn í dag og á morg­un; létt­skýjað eða skýjað og hiti 11 til 13 stig.

Á sunnu­dag má hins veg­ar bú­ast við skúraklökk­um sunn­an- og vest­an­lands, en þeir munu lík­lega halda sig meira inni á land­inu en í Eyj­um. Það gæti því gert skúra­veður en eins er mögu­leiki á að Vest­manna­eyj­ar sleppi við úr­komu þá.

Á mánu­dag má bú­ast við enn meiri raka og skúr­um um allt land, þar á meðal í Eyj­um. Meira þegar líður á dag­inn, svo það er um að gera fyr­ir Þjóðhátíðargesti að pakka tjöld­un­um snemma, sé þess kost­ur og verði þurrt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert