Ekki í samræmi við stjórnsýslulög

Niðurstaða umboðsmanns Alþingis er sú að málsmeðferð lögreglustjórans í Vestmannaeyjum …
Niðurstaða umboðsmanns Alþingis er sú að málsmeðferð lögreglustjórans í Vestmannaeyjum hafi ekki verið í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. mbl.is/Árni Sæberg

Málsmeðferð lögreglustjórans í Vestmannaeyjum við ráðningu í starf löglærðs fulltrúa var ekki í samræmi við stjórnsýslulög. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis frá 25. júlí sl.

Umboðsmaður telur einnig að synjun lögreglustjóra, á að veita aðgang að hluta umbeðinna gagna, hafi ekki verið byggð á réttum lagagrundvelli.

Greint var frá málinu í DV í dag

Umboðsmaður telur þó að með vísan til dómaframkvæmdar og að teknu tilliti til hagsmuna þess sem hlaut starfið að ólíklegt sé að annmarkarnir á málsmeðferðinni leiði til ógildingar á ráðningunni. Þá segist umboðsmaður heldur ekki hafa tekið afstöðu til þess hver hafi verið hæfastur umsækjenda af þeim sem sóttu um störfin.

Átti að fá að tjá sig um misræmi

Kvartað var yfir málsmeðferðinni við ráðninguna í fyrra. Var kvartað annars vegar yfir því að lögreglustjórinn hafi ekki veitt einstaklingnum andmælarétt í tilefni af upplýsingum sem lögreglustjórinn aflaði um störf hans frá starfstíma hans hjá öðru embætti lögreglustjóra. Hins vegar beindist kvörtunin að því að einstaklingnum hafi verið synjað um aðgang að tilteknum gögnum málsins, meðal annars ferilskrám umsækjenda sem boðaðir voru í viðtöl og sundurliðun stigagjafar þeirra. Alls sóttu 17 einstaklingar um starfið og voru fimm boðaðir í viðtal. Sá sem kvartaði var einn þeirra sem ekki hafði verið boðaður í viðtal.

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.

Umboðsmaður taldi að þegar ný gögn bættust við mál, og telja verður að upplýsingarnar séu aðila í óhag og hafi verulega þýðingu við ráðninguna, sé óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær. 

Segir umboðsmaður að af skýringum lögreglustjóra megi ráða að töluvert misræmi væri á milli þeirra upplýsinga sem kæmu fram í ferilskrá einstaklingsins og þeirra upplýsinga sem lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum aflaði síðan í framhaldinu um fyrri störf hans. Upplýsingarnar hafi skipt máli fyrir mat á reynslu einstaklingsins og því hafi honum átt að vera gefinn kostur á að tjá sig. 

Sjá álit Umboðsmanns Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert