Eyða verslunarmannahelginni sunnan heiða

Síldarævintýrið er árleg hátíð á Siglufirði og eru gestir farnir …
Síldarævintýrið er árleg hátíð á Siglufirði og eru gestir farnir að koma sér fyrir á tjaldstæðum bæjarins. mbl.is/Sigurður Ægisson

Verslunarmannahelgin fer rólega af stað á Ísafirði, Akureyri og Siglufirði að sögn lögreglunnar á hverjum stað. Mýrarboltinn verður haldinn á Ísafirði líkt og undanfarin ár og er nú nokkur umferð á leið inn eftir Ísafjarðardjúpi. Lögregla áætlar þó að flestir verði ekki komnir á svæðið fyrr en síðar í kvöld og gerir ráð fyrir að bæta muni í umferð inn Djúpið eftir átta.

Á Siglufirði, þar sem árlegt Síldarævintýri fer fram, er eitthvað af fólki komið í bæinn og segir lögregla að gera megi ráð fyrir að gestum fjölgi frekar eftir því sem líður á kvöldið.

Nokkur umferð er einnig yfir Öxnadalsheiðina að sögn lögreglunnar á Akureyri sem segir umferðina liggja í báðar áttir. Ekki sé meira af fólki á tjaldstæðum en um hefðbundna sumarhelgi og nokkuð virðist um að norðanmenn haldi suður, þar sem spáð hefur verið betra veðri.

Sömu sögu hafði lögreglan á Egilsstöðum að segja. Í Neskaupstað væru vissulega gestir að sækja í Neistaflug, en töluvert virtist þó um að heimamenn kysu að eyða þessari verslunarmannahelgi sunnan heiða þar sem spáð væri betra veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert