Ágætt ferðaveður um helgina

Svona verður veðrið kl. 16 á morgun, laugardag.
Svona verður veðrið kl. 16 á morgun, laugardag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Búast má við góðu veðri víðast hvar á landinu um helgina. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands verður veðrið í dag nokkurn veginn alveg eins og það var í gær um allt land og það sama gildir um morgundaginn.

Sjá nánar á veðurvef mbl.is

Besta veðrið verður á Suður- og Vesturlandi í dag og á morgun, en á sunnudag mun það dreifast meira. Verður þá áfram hlýjast fyrir sunnan og vestan með úrkomu, en svalara og þurrara norðanlands.

Hvergi ætti þó að gera grenjandi rigningu og rok um helgina, en leiti fólk sólar eru Suðurland og Vesturland þeirra staðir í dag og á morgun. Skúraveður verður síðan um allt land á sunnudag og mánudag.

Stefnir í veðursæla Þjóðhátíð

Veðurspáin fyrir Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum lítur mjög vel út fyrir daginn í dag og á morgun; léttskýjað eða skýjað og hiti 11 til 13 stig.

Á sunnudag má hins vegar búast við skúraklökkum sunnan- og vestanlands, en þeir munu líklega halda sig meira inni á landinu en í Eyjum. Það gæti því gert skúraveður en eins er möguleiki á að Vestmannaeyjar sleppi við úrkomu þá.

Á mánudag má búast við enn meiri raka og skúrum um allt land, þar á meðal í Eyjum. Meira þegar líður á daginn, svo það er um að gera fyrir þjóðhátíðargesti að pakka tjöldunum snemma, sé þess kostur og verði þurrt.

Þokkalegt veður fyrir norðan

Á Norðurlandi er lítil gjóla í dag og á morgun og lítilsháttar væta norðan- og austanlands, en léttir til á Norðurlandi vestra þegar líður á daginn, bæði í dag og á morgun.

Á sunnudag má búast við þurrara veðri á Norðurlandi en fyrir suðvestan, en örlítið svalara. Það sama gildir svo um mánudaginn á Norðurlandi eins og annars staðar; skúrir þegar líður á daginn.

Svalara á Vestfjörðum

Svalt verður í veðri á Vestfjörðum og ættu þeir sem hyggjast halda á mýrarboltahátíðina á Ísafirði því að klæða sig þokkalega.

Hitinn verður á bilinu 6 til 12 stig og skýjað að mestu, en Ísfirðingar ættu að sleppa við úrkomu að mestu um helgina, hugsanlega mun dropa aðeins en ekki mun gera úrkomu að ráði. Á mánudag mun áfram vera svalt og gæti gert eitthvert regn seinnipart dags.

Búist er við góðu veðri á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um …
Búist er við góðu veðri á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um helgina, sé í lagi í dag og á morgun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert