Jethro Tull í Hallgrímskirkju á jólaföstu

Jethro Tull flutti verkið Thick as a Brick í Hörpu …
Jethro Tull flutti verkið Thick as a Brick í Hörpu 2014. Hljómsveitin mun halda jólatónleika í Hallgrímskirkju þetta árið. Eggert Jóhannesson

Breska rokkhljómsveitin Jethro Tull verður með jólatónleika í Hallgrímskirkju í Reykjavík á næstu jólaföstu.

Tónleikarnir, sem verða haldnir dagana 7. og 8. desember, eru haldnir að frumkvæði hljómsveitarinnar sjálfrar og húsrými er fyrir 600 manns á hvorum tónleikum.

Ian Anderson var á sínum tíma fenginn til að flytja valin Tull-lög og semja ný til flutnings í St. Brides Church í Lundúnum á aðventu jóla 2003. Í framhaldinu varð til hátíðardagskrá Jethro Tull og hljómsveitin sendi frá sér jóladisk, The Jethro Tull Christmas Album, árið 2009.

Þessa jóladagskrá hefur Jethro Tull flutt í dómkirkjum víðs vegar innan og utan Bretlands. Leikarar taka jafnan þátt í dagskránni með upplestri og þekktir söngvarar hafa komið fram í gestahlutverkum, t.d. Bruce Dickinson, söngvari Iron Maiden, sem kom fram með hljómsveitinni á jólatónleikunum í Kantaraborg.

Tónleikarnir á Íslandi verða á svipuðum nótum en ekki hefur verið ákveðið hverjir koma fram með hljómsveitinni í Hallgrímskirkju.

Byrjað verður að selja aðgöngumiða á tix.is kl. 10 á fimmtudaginn, 4. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert