Leigubílstjórar skora á ráðherra

Leigubílstjórar ætla að afhenda innanríkisráðherra áskorun í dag vegna Reykjanesbrautar.
Leigubílstjórar ætla að afhenda innanríkisráðherra áskorun í dag vegna Reykjanesbrautar. mbl.is

Ólöf Nordal innanríkisráðherra hittir leigubílstjóra af Suðurnesjum í hádeginu í dag við gatnamót Hafnavegar og Reykjanesbrautar.

Þar ætla bílstjórarnir að afhenda ráðherra áskorun um bætt samgöngumál á Reykjanesbraut.

Leigubílstjórar af A-stöðinni ætla að aka saman í hóp frá Garði en Jóhannes Hilmar Jóhannesson, sem lést í umferðarslysi við þessi sömu gatnamót á dögunum, starfaði m.a. í afleysingum sem leigubílstjóri á A-stöðinni.

Vilja tvöfalda Reykjanesbraut

„Þetta var hræðilegt slys sem þarna varð og er eitt af mörgum slysum sem þarna hafa orðið,“ segir Valur Ármann Gunnarsson, talsmaður leigubílastöðvarinnar.

„Áskorun okkar snýst um að hafist verði handa við breikkun þessara tveggja áfanga sem eftir eru á Reykjanesbraut og að verklok verði eigi síðar en í lok árs 2018. Við skorum einnig á ráðherra að sjá til þess að veitt verði fjármagn árlega til viðhalds Reykjanesbrautinni, þar sem djúpar rásir í henni eru ekki síður hættulegar,“ segir Valur Ármann.

Flytur frumsamið ljóð

Hann starfaði í lögreglunni hér á árum áður og kom á þeim tíma að mörgum banaslysum og alvarlegum umferðarslysum á Reykjanesbraut. „Ég þekki marga sem eru örkumla eftir þessi slys. Ég mun í dag flytja ljóð sem ég samdi fyrir hartnær 30 árum þar sem ég setti mig í spor látinna. Mér finnst svo skelfilegt að þetta ljóð skuli enn þá eiga við í dag en það var áskorun til samgöngumálaráðherra þess tíma,“ segir hann.

Valur bætir við að almenningi sé frjálst að koma og styðja þessa baráttu þeirra en fundur leigubílstjóranna og ráðherra er áformaður kl. 12.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert