Setja upp hávaðamæla

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Isavia hefur ákveðið að setja upp hávaðamæla sem mæla hljóðmengun frá flugumferð á Keflavíkurflugvelli. Þetta gerir Isavia í framhaldi af bókun frá bæjarráði Reykjanesbæjar þar sem því var beint til flugvallaryfirvalda á Keflavíkurflugvelli að reyna eftir fremsta megni að draga úr og takmarka óþarfa ónæði sem íbúar Reykjanesbæjar verða fyrir vegna flugumferðar um Keflavíkurflugvöll.

Þetta kemur fram í frétt á vef Isavia.

Þar segir að yfir standi endurbætur á norður-suður-flugbraut Keflavíkurflugvallar og fari því nær öll flugumferð um austur-vestur-brautina. 

Sjá frétt mbl.is: Vill draga úr ónæði vegna flugumferðar

„Nú á meðan á framkvæmdum stendur hefur verið reynt eftir fremsta megni að lágmarka flugumferð yfir byggð og þá sérstaklega flugtök sem eru hávaðasamari en lendingar. Veðuraðstæður og umferðarskipulag á flugvellinum skiptir þó einnig máli og því er ekki hægt að koma í veg fyrir að umferð fari yfir byggð,“ segir í fréttinni.

„Isavia hefur átt nokkra góða fundi með fulltrúum Reykjanesbæjar og notendum Keflavíkurflugvallar til þess að kynna þessar framkvæmdir og áhrif þeirra. Samstarfið hefur verið gott og allir hafa reynt sitt besta til þess að lágmarka flug yfir byggð eins og kostur er og lágmarka hljóðmengun í þau skipti sem fljúga þarf yfir byggð,“ segir enn fremur í fréttinni.

„Þangað til rauntímamælarnir verða settir upp hefur Isavia tekið á leigu hljóðmæli sem félagið mun nota til þess að fylgjast betur með hljóðmengun frá flugumferð og gera prófanir sem miða að því að minnka ónæði af völdum flugumferðar yfir byggð. Ef þessar prófanir skila árangri verður þá hægt að gera breytingar á flugferlum í takt við þær,“ segir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert