Sjarmur, Magni og Jón Daði

Halldóra Snorradóttir hefur starfað hjá Kattholti í fimm ár. Læðan …
Halldóra Snorradóttir hefur starfað hjá Kattholti í fimm ár. Læðan við hlið hennar var skilin eftir með systur sinni og fimm kettlingum. Þær þurftu að veiða sér til matar í tíu daga áður en þær fundust. mbl.is/Freyja Gylfa

Í dag eru 25 ár liðin síðan fyrsta kattaathvarf Íslands, Kattholt, var opnað með blessunarorðum séra Guðmundar Þorsteinssonar dómprófasts og ræðu Sigríðar Heiðberg, þáverandi formanns Kattavinafélagsins, þar sem hún rakti sögu félagsins.

„Það tók 8-9 ár að byggja Kattholt og gera það klárt þannig að það væri hægt að taka við kisum og þegar húsið var opnað var moldargólf, steinveggir og allt ómálað,“ sagði Halldóra Snorradóttir, starfsmaður Kattholts, þegar Morgunblaðið heimsótti athvarfið í gær.

Orðið auðveldara að finna týnda ketti

„Þegar Kattholt var stofnað var mikið um villiketti og týnda ketti í Reykjavík og það vantaði aðstöðu til þess að koma þeim aftur heim. Það breytti svakalega miklu þegar athvarfið kom til sögunnar, því fólk gat leitað hingað með týnda ketti sem það fann og haft samband þegar köttur týndist,“ sagði Halldóra. Hún bætti því við að margt hefði breyst með tilkomu samskiptavefjarins Facebook og nú væri mun auðveldara að finna týnda ketti og komast þeir fyrr heim en áður. „Fólk finnur ketti, auglýsir það á Facebook og það nær til svo margra að kötturinn kemst fljótt heim, sem er frábært.“

Hlutverk Kattholts er að hlúa að heimilislausum köttum og að finna ný og betri heimili fyrir þá. Að jafnaði dvelja um 50 kettir á öllum aldri í Kattholti. „Margar kisur sem við fáum eru merktar og komast aftur heim, en við þurfum að finna nýtt heimili fyrir þær ef enginn eigandi gefur sig fram,“ segir Halldóra. Hún telur að það sé mjög mikilvægt fyrir eigendur að örmerkja kettina sína. „Þannig aukast líkur á að þeir komist heim.“

Meiri hreyfing í fersku lofti

Íbúar Kattholts eru í fimm herbergjum, Ólátagarði, Sjónarhóli, Latabæ, Villingaholti og Dyngju. „Draumurinn hefur lengi verið að búa til útigerði þar sem kettirnir geta fengið ferskt loft,“ sagði Halldóra. Kettirnir í Kattholti fá að hreyfa sig, en aðeins innanhúss enda gætu þeir hæglega týnst á nýjan leik ef þeim væri hleypt út.

Síðustu tíu ár hafa að meðaltali 670 óskilakettir verið í Kattholti á ári.

Aldursforsetinn Sjarmur í Kattholti.
Aldursforsetinn Sjarmur í Kattholti. mbl.is/Freyja Gylfa
Magni hefur verið í Kattholti síðan í febrúar, lengst allra.
Magni hefur verið í Kattholti síðan í febrúar, lengst allra. mbl.is/Freyja Gylfa
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert