Skilar af sér dósum um afturendann

Þessi kú safnar dósum og flöskum á unglingalandsmóti UMFÍ.
Þessi kú safnar dósum og flöskum á unglingalandsmóti UMFÍ.

Kýrin Svartakusa í Borgarnesi vekur heilmikla eftirtekt enda með óvenjulegri beljum í Borgarfirði þessa dagana. Hún tekur við notuðum flöskum og dósum að framan en skilar af sér út um afturendann.

Guðmundur Hallgrímsson á Hvanneyri hannaði og smíðaði dósasöfnunarbeljuna, sem er mannhæðarhá og rúmlega tveggja metra löng. Hún stendur á tjaldsvæðinu á unglingalandsmóti UMFÍ sem nú stendur yfir í Borgarnesi. Beljan er hönnuð með það fyrir augum að mótsgestir geti sett dósa- og flöskupoka inn um framenda hennar og að þeir sem sjái um að tæma hana geri það um afturenda hennar, segir í fréttatilkynningu frá unglingalandsmótinu.

Á annað þúsund ungmenni eru skráð til keppni í 14 greinum á unglingalandsmóti UMFÍ í Borgarnesi yfir verslunarmannahelgina og búist við að 10-15.000 manns verði í bænum þegar mest verður.

Keppni á mótinu hófst í gærmorgun með golfi og körfuknattleik en keppt verður í fjölda annarra greina í dag. Fyrir utan keppni er boðið upp á mjög fjölbreytta afþreyingu alla dagana og langt fram á kvöld. Fyrsta kvöldvakan var á fimmtudagskvöld en þá stigu á svið Úlfur Úlfur og Emmsjé Gauti.

Unglingalandsmótið sett í kvöld

Mikil spenna hefur verið í frjálsum að undanförnu og gríðarlega skemmtilegt er að fimm flottir spretthlauparar verða með sýningarriðil á mótssetningu unglingalandsmóts UMFÍ föstudaginn 29. júlí milli 20 og 21. Þeir Ari Bragi Kárason, Kolbeinn Höður Gunnarsson, Dagur Andri Einarsson og Trausti Stefánsson, ásamt Patreki Andrési Axelssyni, munu etja kappi í 100 metra spretthlaupi.

Patrekur Andrés sló Íslandsmet á dögunum, er hann keppti á Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra síðustu helgi. Patrekur Andrés er blindur og hleypur ásamt fylgdarhlaupara er hann keppir. 

Það er líf og fjör á unglingalandsmótinu í Borgarnesi.
Það er líf og fjör á unglingalandsmótinu í Borgarnesi.

Kolbeinn Höður varð einnig Íslandsmeistari á meistaramóti Íslands um seinustu helgi þegar hann sigraði í 100 metra hlaupi. Hann hljóp á 10,61 sekúndu og var níu hundruðustu úr sekúndu frá vikugömlu Íslandsmeti Ara Braga sem gat ekki keppt á mótinu. Ari Bragi lenti í því óláni að flugvélin sem hann ferðaðist með á mótið gat ekki lent á Akureyri vegna þoku og varð hann því frá að hverfa.

„Blessunarlega er góð veðurspá alla verslunarmannahelgina í Borgarnesi og verður því ekki vandkvæði fyrir þá að etja kappi á föstudaginn. Þessir strákar eru búnir að vera í banastuði í allt sumar og til alls líklegir. Verður gaman að sjá þessa hröðustu spretthlaupara landsins á setningarathöfn ULM 2016,“ segir í tilkynningunni.

Sjá veðurvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert