Stælar gagnvart Sigmundi

Skjáskot/sigmundur.is

„Ég mundi segja að þetta væri pólitísk list. Ég mundi segja að þetta væru mótmæli gagnvart ríkisstjórn sem ekki stendur sig vel, gagnvart manni sem er á móti fólkinu.“ Svona lýsir listakonan Sigurrós Eiðsdóttir verki sínu, sem birtist á myndasíðunni sigmundur.is, en á henni má finna myndir af ungu fólki víðs vegar í Reykjavík, haldandi andlitsmynd af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir andlitum sínum.

Sigurrós er búsett í Lundúnum, þar sem hún var að ljúka listnámi. Segist hún hafa tekið eina mynd af Sigmundi þegar hann hélt áramótaávarp sitt, þegar hún var í fríi á Íslandi. „Þaðan kemur þessi mynd sem ég silkiþrykkti og silkiþrykkti fullt af plakötum. Svo fór ég bara og tók myndir út um allan bæ með plakötin fyrir andlitinu, sem einhvers konar mótmæli.“

Myndirnar voru því ekki skólaverkefni, heldur fremur leið hennar til að mótmæla stjórnvöldum. „Ég gerði plakötin í skólanum en svo einhvern veginn notaði ég þetta ekki sem verkefni. Þetta var aðallega ég að vera með stæla gagnvart Sigmundi. Ég fíla hann ekki og hef aldrei fílað hann sem stjórnmálamann eða sem manneskju.“

Andlit Sigmundar fyrir framan auglýsingu Hjálparstarfs kirkjunnar.
Andlit Sigmundar fyrir framan auglýsingu Hjálparstarfs kirkjunnar. Skjáskot/sigmundur.is

Eiga myndirnar að vera táknrænar fyrir það sem hún telur skoðanir Sigmundar. Til dæmis er ein mynd af andliti hans fyrir framan osta í verslun, sem vísar í „þegar hann vildi ekki flytja inn ost“ og önnur fyrir framan auglýsingu Hjálparstarfs kirkjunnar, „eftir að hann sagði að við gætum grætt á kvölum annarra,“ og vísar Sigurrós þar í ummæli Sigmundar um að þrátt fyrir versnandi kjör víða vegna hnattrænnar hlýnunar, felist í henni tækifæri fyrir lönd á norðurslóðum. „Þetta er frekar satírískt verk, sem gerir grín að græðginni og heimskunni.“

Sigurrós segir vel koma til greina að bæta við verkið í framtíðinni, en fyrst fyrst ætlar hún að gifta sig um næstu helgi og halda því næst í ferðalag um heiminn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert