Verkfræðinemar kepptu í kappakstri

Liðsmenn Team Spark og kappakstursbíllinn.
Liðsmenn Team Spark og kappakstursbíllinn. Ljósmynd/Team Spark

Lið verkfræðinema við Háskóla Íslands, Team Spark, er nýkomið heim úr tveggja vikna ferðalagi, þar sem liðið tók þátt í tveimur kappakstursbílakeppnum í Evrópu.

Um 40 nemar í BS-námi skipa liðið og koma þeir úr öllum verkfræðigreinum við skólann. Þátttaka í liðinu jafngildir sex eininga námskeiði sem nær yfir tvær annir, heilt skólaár. Á þeim tíma hafa nemendurnir hannað og smíðað sinn eigin kappakstursbíl, sem þeir fluttu með sér og kepptu með. Verkefnið er árlegt og stærstur hluti liðsins er nýr hverju sinni.

Sjötta árið í röð í Silverstone

Fyrst tók liðið þátt í hinni árlegu Formula Student UK-keppni í Silverstone í Englandi, en Team Spark hefur tekið þátt í henni á hverju ári síðan 2011. Mótið er fjögurra daga, þar sem fyrstu tveir dagarnir fara í kynningar á hönnun, kostnaði og sjálfbærni, auk viðskiptaáætlunar bílsins. Síðari dagarnir eru síðan aksturshluti hennar, en til að geta tekið þátt í honum þurfa bílarnir að uppfylla strangar og margskiptar öryggiskröfur.

Ljósmynd/Team Spark

Team Spark komst ekki í gegnum öryggiskröfurnar að þessu sinni og hafnaði í 64. sæti af 114 liðum. Villa kom upp í rafmagnsbúnaði bílsins og tókst liðsmönnum ekki að gera við bílinn í tæka tíð. „Við náðum að laga þá villu tveimur til þremur tímum eftir að öryggisprófunum lauk, svo við rétt misstum af öryggisprófununum síðustu“, segir Laufey Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri Team Spark.

„Þetta virkar sem sagt þannig að það eru sex öryggisprófanir og við náðum að vera með í gegnum tvær, fórum svo í rafmagnsöryggisprófanirnar og stoppuðum þar og þegar við fundum villuna var búið að loka hinum þremur.“

Liðinu gekk hins vegar vel í fyrri hluta keppninnar, þar sem það lenti í 12. sæti í viðskiptaáætlunarhlutanum.

Hugað að bílnum.
Hugað að bílnum. Ljósmynd/Team Spark

Óku á Ítalíu

Að lokinni þátttöku í Silverstone hélt Team Spark til Varano á Ítalíu, þar sem það tók þátt í Formula Student Italy, sem er hluti sömu mótaraðar en er örlítið minni keppni.

Sama fyrirkomulag er á ítölsku keppninni; fyrst er keppt í ýmsum kynningum og síðar í akstri. Hitinn á Ítalíu gerði Íslendingunum erfitt fyrir, en að vinna 16 klukkustunda vinnudaga í allt að 36 stiga hita var ekki eitthvað sem liðsmenn Team Spark höfðu undirbúið sig fyrir.

„Við ákváðum um jólin að taka þátt í annarri keppni og vorum að skoða fleiri keppnir. Keppnin á Ítalíu hentaði ágætlega því hún er helgina á eftir.“ Laufey segir mörg lið taka þátt í fleiri en einni og fleiri en tveimur keppnum yfir sumarið og fari þá heim á milli keppna til að lagfæra bíla sína. Það sé hins vegar erfitt fyrir Íslendinga þar sem þeir búi á eyju og þurfi að flytja bílinn yfir haf.

Liðið komst í gegnum öryggisprófanir á Ítalíu og gátu því tekið þátt í aksturshluta brautarinnar. Fjórir ökumenn eru í liðinu, þrír strákar og ein stelpa. „Við erum með fjóra ökumenn. Við fórum öll í gokart í vetur og þar var valið út frá bestu tímunum í því og vinnuframlagi yfir veturinn.“ Keppt var í fjórum greinum og náðu allir ökumennirnir því að keppa eitthvað.

Liðið hafnaði í 10. sæti af rafbílum í keppninni á Ítalíu, en einungis 12 rafmagnsbílar komust í gegnum öryggisprófanir. Í heildina hafnaði liðið í 31. sæti af 85 skráðum bensín- og rafmagnsliðum.

Ljósmynd/Team Spark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert